Flokkamótin í Kronborg héldu áfram þar sem níu íslenskir skákmenn taka þátt í skemmtilegu flokkaskiptu móti. Augu flestra eru á stórmeistaranum Vigni Vatnari Stefánssyni og alþjóðlega meistaranum Degi Ragnarssyni en þeir náðu báðir góðum úrslitum á þriðja keppnisdegi með sigri og jafntefli.
GM-flokkur
Vignir byrjaði á ákveðnu harðlífisjafntefli gegn Tor Frederik. Vignir hafði svart og endaði peði undir í tvöföldu hróksendatafli. Vignir virtist finna rétta blöndu af aktífum leikjum til að halda jafnvæginu og sá norski náði ekki að knésetja Vigni, jafntefli niðurstaðan.
Á sama tíma gerði Dagur stutt jafntefli við grískan IM. Sá gríski var annaðhvort verulega morgunfúll eða algjörlega búinn að missa áhugann á skák því hann reyndi bókstaflega ekki neitt með hvítu.
Vignir fylgdi jafnteflinu eftir með fínum sigri með hvítu mönnunum gegn Nikolaj Borge. Vignir átti möguleika á glanspartý-leik í miðtaflinu en fór þess í stað peði yfir í endatafl sem hann náði að klára.
Seinni umferðin reyndist vera ansi góð hjá þeim íslensku en Dagur náði líka í sigur með svörtu gegn Nicolai Kistrup. Dagur tefldi mjög fína pósa-skák og sá danski var yfirspilaður jafnt og þétt.
Vignir hefur því 4,5 vinning af 6 mögulegum en Dagur hefur 3,5 vinninga og báðir í góðum málum.
Masters 3: (2123-2156)
Adam Omarsson átti fínan dag og fékk 1,5 vinning en Lenka Ptacnikova „splittaði“ sínum skákum, vann og tapaði. Adam hefur 2,5 vinning en Lenka 1,5 vinning.
Masters 4: (2107-2123)
Björn Hólm Birkisson gerði jafntefli í fyrri skák sinni en tapaði þeirri seinni og hefur 1,5 vinning af 4. Björn þarfnast slagkrafts og þarf að finna trú á eigin hæfileikum, sem eru töluverðir!
Masters 7 (2008-2030)
Josef Omarsson átti frábæran dag og vann báðar sínar skákir og hefur 3 vinninga í 4 skákum og er í öðru sæti í sínum flokki.
Basic 3 (1796-1819)
Unnar Ingvarsson tekur þátt í Basic 3 flokknum og átti fínan dag, vann og gerði jafntefli og hefur 2 vinninga eftir 4 skákir og má þokkalega vel við una.
Basic 4 (1750-1796)
Erlingur Jensson vann eina og tapaði annarri í dag, eins og í gær og hefur 50% 2 vinninga af 4.
Basic 5 (1713-1750)
Lárus H. Bjarnason fer með himinskautum í sínum flokki. Lárus fékk 1,5 vinning í dag og hefur 3,5 vinning úr 4 skákum og er efstur í sínum flokki!
Taflmennska í Masters og Basic flokkum heldur áfram á morgun

















