Flestar skákir fóru eftir bókinni í fyrstu umferð á 100 ára afmælismóti Skáksambands Íslands sem fram fer á Blönduósi. Stigahæstu mennirnir, Ivan Sokolov, Vignir Vatnar og Ivan Shitco unnu allir sínar skákir en óvænt úrslit komu þó á fjórða borði þar sem landsliðskonan Guðrún Fanney Briem gerði jafntefli gegn landsliðsmanninum og þrefalda Íslandsmeistaranum Guðmundi Kjartanssyni.

Ein óvænt úrslit til viðbótar litu dagsins ljós þar sem heimamaðurinn Þorleifur Ingvarsson gerði jafntefli við hinn efnilega Ingvar Wu Skarphéðinsson. Aðrar skákir fóru eftir bókinni eins og oft er sagt.

Sveitastjórinn í Húnabyggð Pétur Arason opnaði mótið með því að leika fyrsta leiknum í skák Markúsar Orra Óskarssonar og Ivan Sokolov. Markús og Pétur eru frændur eins og Pétur benti á og því skemmtilegt að það skildi hitta þannig á að Markús tefldi á efsta borði og hefði hvítt!

Íslandsvinurinn Ivan Sokolov byrjaði á því að leggja Markús að velli í vel útfærðri skák eins og hans er von og vísa. Markús barðist vel og fékk hrós frá Ivan eftir skákina. Ivan þurfti að finna fallega mannsfórn í miðtaflinu til að halda stöðuyfirburðum sínum.

33…Db7! var hámenntuð mannsfórn, Markús tók á f5 en hvíta staðan hrundi í framhaldinu.

Vignir nýtti betra rými til að herja á veikt peð á b7 hjá svörtum og braust Vignir í kjölfarið í gegn á drottningarvæng gegn þýskum andstæðingi sínum.

Guðrún Fanney Briem náði óvæntustu úrslitum umferðarinnar þegar hún skildi jöfn gegn Guðmundi Kjartanssyni. Guðrún tefldi traust og var peði yfir í endataflinu þegar samið var en líklegast engin leið í gegn.

Önnur úrslit voru meira og minna eftir bókinni:

2. umferð mun bjóða upp á jafnari viðureignir og má búast við skemmtilegri morgunumferð.

Hannes og Lenka mætast en þar mætast þau sem hafa oftast orðið Íslandsmeistarar í opnum flokki og kvennaflokki. Félagarnir Stefán Steingrímur og Björn Þorfinnsson munu vafalítið berjast og æskan og vizkualdurinn eigast við þegar landsliðsmaðurinn Hilmir Freyr mætir nýkjörnum heiðursfélaga SÍ, Áskeli Erni Kárasyni.

Boðið verður upp á samantektarþætti að loknum hverjum keppnisdegi, seint að kvöldi eða snemma morguns daginn eftir. Hér fyrir neðan er fyrsti þáttur:

- Auglýsing -