Benedikt Briem hefur stolið senunni á Lagos Open í Portúgal en hann situr nú í efsta sæti ásamt pólska FIDE-meistaranum Kacper Tomaszewski með 4,5 vinning eftir 5 umferðir. Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson er ekki langt undan, með 4 vinning en hann varð að gefa heilan vinning útaf Íslandsmótinu Netskák en hefur unnið allar tefldar skákir sínar.
Benedikt hafði svart í umferðinni gegn Hanna Bugaj (1975) frá Póllandi. Snemma í miðtaflinu blés ekki byrlega fyrir Benedikt. Bugaj vildi þvinga jafntefl með 17.Bxh6
Hér er 17…gxh6 líklegast „besti“ leikurinn en gefur aðeins jafntefli. Benedikt tók á sig verra tafl peði undir en með spili og lék 17…f5!?
Hvítur hélt betra tafli lengi en eftir 40. leikinn fór hvítur að molna niður í tímahrakinu og Benedikt náði í enn einn seiglusigurinn í hróksendatafli í skák þar sem hann hafði staðið höllum fæti lengst af! Alvöru karakter og barátta í Blikanum.
Vignir náði nokkum þægilegum sigri með svörtu gegn öðrum Pólverja Emilia Szopa (2059) sem er WCM. Skákin var nokkuð þægileg, Vignir vann peð og virtist tæknilegi hluti skákarinnar eftir það aldrei vefjast fyrir Vigni.
Benedikt efstur eins og áður sagði ásamt Kacper Tomaszewski og mætast þeir í 6. umferð þar sem Benedikt hefur hvítt. Vignir fær Nils Decker frá Þýskalandi en hann hefur 2098 skákstig.
Vert er að minna á skráningu á mót þeirra félaga á Le Kock sem fram fer síðar í mánuðinum hvar Simon Williams mætir til leiks!
Lagos Open er 9 umferða mót með einum tvöföldum degi en að öðru leiti er ein skák á dag. Vignir er næststigahæstur á mótinu á eftir indverskum alþjóðlegum meistara og Benedikt er sjöundi í stigaröðinni. Alls eru 74 keppendur á mótinu.



















