Eftirfarandi grein í birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 1989. 

FRÁBÆR árangur Íslendinga á Norðurlandamóti einstaklinga í skólaskák, sem fram fór 10.—12. febrúar sl. Íslenskur sigur í fjórum af fimm keppnisflokkum og annað sætið, naumlega á stigum, í þeim fimmta, er árangur, sem ekki næst nema með markvissu undirbúningsstarfi.

Maðurinn á bak við frábæran árangur íslenskra ungmenna í skák síðustu 15 árin er Ólafur H. Ólafsson, stjórnarmaður í Taflfélagi Reykjavíkur. Hann hefur verið höfundur og leikstjóri í þessu leikhúsi íslenskra skákungmenna allt frá því, að hann var fyrst kjörinn í stjórn Taflfélags Reykjavíkur árið 1974. Ólafur er lítið fyrir að láta á sér bera og því er hann lítt þekktur utan raða skákáhugamanna.

Ólafur fæddist í Reykjavík 8. janúar 1945, elsti sonur hjónanna Guðrúnar Sveinbjörnsdóttur og Ólafs Þ. Ólafssonar. Foreldrar hans slitu samvistir, þegar hann var ungur að árum og ólst hann upp hjá móður sinni og bræðrum, Skúla og Val, á Grettisgötu 5 í Reykjavík. Faðir Ólafs rak þjónustustofu í Reykjavík í því húsnæði, sem Taflfélag Reykjavíkur á nú.

Ólafur gekk menntaveginn, lauk stúdentsprófi frá MR 1964 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1968. Að loknu prófi hóf hann störf á Hagstofu Íslands, síðan lá leiðin á Skattstofu Reykjavíkur, og loks til Ríkisskattanefndar.

Ólafur fékk ungur áhuga á skák og gekk í Taflfélag Reykjavíkur fyrir þrjátíu árum. Hann vann sig upp í meistaraflokk og var kominn í röð betri skákmanna landsins um 1970. Ólafur tefldi í sveit stúdenta á heimsmeistaramóti í Puerto Rico 1971 og í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands 1972. Eftir keppnina í landsliðsflokki dofnaði áhugi Ólafs á að tefla og hann sneri sér að stjórnarstörfum í Taflfélagi Reykjavíkur.

Ólafur var fyrst kjörinn í stjórn félagsins árið 1974, og hefur átt sæti í henni síðan. Að auki hefur hann setið í stjórn Skáksambands Íslands.

Ólafur lagði strax mikinn metnað í störfin fyrir Taflfélagið og hefur verið aðalmaður stjórnar félagsins, síðan hann kom í stjórn. Hann þykir ráðríkur og fylginn sér, þótt ekki hafi hann sitt fram með ofsa. Hann kann því mjög illa, að koma ekki fram málum sínum, og ræðir málin við menn og hættir ekki ótilneyddur, fyrr en hann hefur unnið viðmælendur á sitt band. Ólafur þykir rökfastur og samkvæmur sjálfum sér í allri umræðu og háttum.

„Hann vill ráða en ekki vera formaður,“ sagði einn viðmælandi Morgunblaðsins, en mörgum kemur það spánskt fyrir sjónir, að Ólafur skuli aldrei hafa verið formaður Taflfélags Reykjavíkur. Í þessu birtist eitt aðaleinkenni skapgerðar Ólafs. Hann hefur frá fyrstu tíð þótt hæverskur og lítið fyrir að trana sér fram og baða sig í sviðsljósinu. En hann hefur mjög ákveðnar skoðanir á málunum og viðrar þær umbúðalaust, þar sem honum þykir það við eiga.

Allir viðmælendur Morgunblaðsins hafa verið sammála um, að Ólafur lifi fyrir Taflfélagið og unglingastarfið sé hans sérdeild.

Margir segja, að sjóndeildarhringur Ólafs nái ekki út fyrir TR og unglingastarf þess. Það er auðvitað of mikið sagt, en víst er, að Ólafur ber hag félagsins og yngstu meðlima þess mjög fyrir brjósti. Hann hefur frá fyrstu stjórnarárum hjá TR verið skákstjóri í öllum grunnskóla- og framhaldsskólamótum innanlands, og aðalskipuleggjandi unglingaæfinga í skákheimili TR alla laugardaga. Ólafur var einn aðalhvatamaður að þátttöku Íslendinga í Norðurlandamótum grunnskóla og framhaldsskóla og ávallt „fylgt drengjunum sínum“ á þau mót sem fararstjóri. Hann hefur vakað yfir velferð þeirra og séð um, að þeir tefli við bestu hugsanlegar aðstæður. Með þessu hefur hann lagt grunninn að einstakri sigurgöngu Íslendinga á Norðurlandamótum í skólaskák, því yfirleitt vinna Íslendingar flesta flokka á mótunum. Svo mjög hefur unglingastarfið þótt hafa mikinn forgang hjá TR, að stofnað var nýtt taflfélag í Reykjavík árið 1975 vegna þess, „að ekki var friður til að tefla fyrir krökkum“.

Ólafur leggur sitt til þessara mála af hugsjón eftir „gamla skólanum“. Hann hefur lagt mikla fjármuni frá sjálfum sér í þessar ferðir og unglingastarfið almennt og „er næstum því feiminn, ef hann leggur fram reikninga fyrir útlögðum kostnaði, þótt þeir séu ávallt allt of lágið“, eins og einn viðmælandi blaðsins komst að orði.

Unglingar í taflfélaginu tala oft í gamni um Ólaf sem pabba sinn, en hann er þeim bæði sem þjálfari og faðir. Heima hjá honum er alltaf opið hús fyrir drengina, og þar koma þeir oft saman til að tefla og ræða málin „yfir kók og prins póló“.

En Ólafur sinnir fleiri málum TR en unglingamálum. Hann ritar flestar fundargerðir, ársskýrslur og skráir úrslit allra móta, og hefur frá fyrstu tíð ritað mikið í Fréttablað TR.

Ólafur hefur fleiri áhugamál en skák. Hann hefur yndi af sagnfræði og á mikið safn rita um það efni, sem hann hefur kynnt sér vel. Hann hlustar mikið á sígilda tónlist og eru óperur Verdis og Mozarts honum kærar.

„Ólafur er ómetanlegur maður fyrir skákhreyfinguna á Íslandi,“ segir Þráinn Guðmundsson, forseti Skáksambands Íslands. Það eru orð að sönnu. Ólafur hefur verið lykilmaður í uppbyggingu blómlegs og sterks skáklífs á Íslandi, sem byggt er á grunni þess mikla skákáhuga, sem rekja má til glæsilegrar frammistöðu Friðriks Ólafssonar og einvígis Fischers og Spasskíjs. Ólafur hefur haft skilning á því, að skáklíf verður að byggja frá grunni, þ.e. byrja á þeim yngstu. Sagt er, að Ólafur taki við skákmannsefnum börnum að aldri, ali þau upp í góðum skáksiðum og síðan taki Skáksambandið og Jóhann Þórir Jónsson, ritstjóri Skákar, við og haldi mót til að gefa ungu mönnunum færi á að öðlast reynslu og alþjóðlega titla.

SVIPMYND eftir Braga Kristjánsson

- Auglýsing -