Skákskóli Íslands eignaðist á dögunum tíu fartölvur af nýjustu gerð.
Um er að ræða lærdómstölvur, svokallaðar Chromebook með snertiskjá, sem koma til með að nýtast vel í starfi Skákskólans. Iðkendur við skólann nýta tölvurnar meðal annars á æfingum við lausnir á viðfangsefnum, til undirbúnings fyrir skákir og yfirferðar á skákum að þeim loknum en einnig í aðra tæknitengda vinnu við skákæfingar. Tölvurnar munu einnig auðvelda ungmennum að taka þátt í netkeppnum af ýmsu tagi.
Það er Tölvulistinn sem styður rausnarlega við Skákskólann í þessu verkefni.
Allt kennsluefni Skákskólans er aðgengilegt á læstu svæði á vefnum og nemendur hafa aðgang að því, bæði innan Skákskólans en einnig heima. Mikið er lagt upp úr heimaverkefnum og sjálfstæðum vinnubrögðum.
Skákskólinn tekur einnig vel á móti iðkendum af landsbyggðinni í fjarkennslu. Nú þegar eru skráðir iðkendur við skólann frá Akureyri, Húsavík og Ísafirði.
Enn er opið fyrir skráningu í Skákskólann.