Símon Þórhallsson og Áskell Örn Kárason við upphaf lokaumferðarinnar. Mynd: Heimasíða SA

Í dag lauk Haustmóti Skákfélagsins með æsispennandi skákum. Eins og í fyrri umferðum stóð til að tefldar yrðu fjórar skákir en því miður komust tveir keppendur ekki í lokaumferðina og urðu að gefa sínar skákir. Því voru aðeins tvær skákir tefldar í dag.
Í skák Smára Ólafssonar og Sigurðar Eiríkssonar kom upp Sikileyjavörn. Allt virtist í nokkuð góðu jafnvægi þegar Sigurður lék ónákvæmum riddaraleik. Hann sá ekki hið sterka svar Smára og fékk koltapað tafl. Smári sá allt og leiddi skákina til sigurs á sannfærandi hátt.

Í hinni skákinni áttust við ungstirnið Símon Þórhallsson og hinn reynslumikli Áskell Örn Kárason. Fyrir umferðina voru þeir í tveimur efstu sætunum. Áskell, sem stýrði svörtu mönnunum, var með hálfs vinnings forskot á Símon.

Hvítur virtist með aðeins betri stöðu upp úr byrjuninni en svarta staðan var traust. Þá var Áskell sleginn skákblindu sem Símon nýtti sér og vann peð. Að auki varð peðastaða svarts heldur tætingsleg og útlit fyrir að hann tapaði öðru peði. Í stað þess að leggjast í vörn reyndi Áskell að grugga vatnið en óhætt er að fullyrða að Símon stóð lengi vel til vinnings. Alþjóðlega meistaranum tóks þó að skapa nægileg vandamál í hvítu herbúðunum til að fá ungstirnið út af sporinu. Svartur eignaðist sterkan frelsingja sem tryggði það mikið mótspil að Símoni tókst ekki að landa stóra laxinum. Að lokum þrátefldu þeir og skákin endaði með jafntefli. Það dugði til þess að Áskell varð einn í efsta sæti en Símon endaði í 2. sæti. Þriðji varð Andri Freyr Björgvinsson. Er óhætt að segja að Áskell hafi haft lukkuna í liði með sér gegn þeim báðum. Þessir þrír voru í sérflokki í mótinu.

Hér til ofan má sjá þá Símon og Áskel takast í hendur fyrir hina dramatísku skák.

Heildarstöðuna má sjá á Chess-Results.

Á sunnudag fer fram Hausthraðskáksmót SA. Verður mótið reiknað til alþjóðlegra skákstiga. Mótið hefst kl. 13.00.

Af heimasíðu SA.

- Auglýsing -