Helgi Áss Grétarsson tryggði sér í kvöld keppnisrétt í undanúrslitum Íslandsbikarins í skák. Hann vann Jóhann Hjartarson í framlengingu í kvöld. Þeir tefldu tvær atskákir (25+10). Fyrri skákinni lauk með jafntefli. Helgi lék af sér manni en hafði fyrir hann tvö peð. Jóhann skilaði manninum fljótt og örugglega til baka og þrátt fyrir tilraunir Jóhanns, sem hefði smá möguleika á sigri, tókst honum ekki að knýja fram sigur.
Jóhann hafði hvítt í seinni skákinni og hafði rýmra tafl. Helgi varðist þó afar vel og skyndilega vöknuðu svörtu mennirnir til leiks og ekker var við ráðið hjá Jóhanni.
Helgi mætir Hannesi Hlífari Stefánssyni í undanúrslitum. Í hinni viðureign undanúrslita mætast stigahæsti skákmaður landsins Hjörvar Steinn Grétarsson og Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson.
Dagskránni hefur verið hliðrað til um einn dag. Frídagur verður á morgun, þriðjudag, og hefjast undanúrslitin á miðvikudaginn.














