Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis við setningu á Sumarskákmóti Fjölnis í Rimmaskóla (Ljósm. Baldvin Berndsen)

Frábær þátttaka var á Sumarskákmóti Fjölnis í Rimaskóla. 75 efnilegir skáksnillingar fögnuðu sumrinu við skákborðið og stóðu sig allir með prýði. Vegna fjölda þátttakenda var keppendum skipt á tvö svæði. Fjölmennastur á mótinu var stúlknaflokkurinn alls 30 skádrottningar sem tefldu í fjölnýtistofu Rimaskóla en í hátíðarsal skólans tefldu strákarnir í eldri og yngri flokki.

Fjölmenni í stúlknaflokki. Alls tefldu 30 áhugasamar stúlkur á Sumarskákmótinu sem er kannski einsdæmi á sterkum grunnskólamótum (Ljósm. Baldvin Berndsen)

Tefldar voru 6 umferðir undir skákstjórn þeirra Helga Árnasonar, Gauta Páls Jónssonar og Jóhanns Arnar Finnssonar. Í stúlknaflokki sýndi hin áhugasama og efnilega skákkona Iðunn Helgadóttir nokkra yfirburði og vann allar sínar skákir. Í næstu 11 sætum lentu Rimaskólastúlkur sem hafa vakið athygli á skákmótum og skákæfingum fyrir mikla breidd og færni og miðað við ungan aldur.

Í hátíðarsalnum voru það hins vegar góðir gestir frá öðrum skákfélögum sem börðust um efstu sætin. Adam Ómarsson skólabróðir Iðunnar úr Landakotsskóla gaf líkt og Iðunn ekkert eftir í taflmennskunni og tefldi til sigurs með því að leggja alla sína andstæðinga. Birkir Hallmundarson Lindaskóla vann yngri flokkinn örugglega.

Þrjár efstu í stúlknaflokki: Iðunn Helgadóttir, Hrafndís Karen Óskarsdóttir og Emilía Embla B. Berglindardóttir ásamt Helga Árnasyni formanni Skákdeildar Fjölnis (Ljósm. Aneta Klimaszewska)

Í lok mótsins var efnt til mikillar verðlaunahátíðar þar sem helmingur þátttakenda vann til verðlauna eða í happadrætti. Rótarýklúbbur Grafarvogs gaf að vanda alla verðlaunagripina en um verðlaunaflóðið sáu Hagkaup, EmmEss, Pizzan, Bókabúð Grafarvogs og CoCo´s tískuverslun.

Efstu þrír í eldri og yngri flokki: Adam Ómarsson, Gunnar Erik Guðmundsson, Arnar Logi Kjartansson, Birkir Hallmundsson, Kormákur Ólafur Kjartansson og Jósef Ómarsson (Ljósm. Aneta Klimaszewska)

Í lokin þáðu allir keppendur glaðning frá Hagkaupum, EmmEss og Ekrunni.

Hin vinsælu skákmót Fjölnis einkennast af því að þar er alltaf boðið upp á óvenju mörg og eftirsóknarverð verðlaun og margir grunnskólanemendur tefla þar á sínu fyrsta skákmóti. Þetta gekk eftir í gær. Skákdeild Fjölnis þakkar öllum þeim sem aðstoðuðu við Sumarskákmót Fjölnis og þeim fyrirtækjum og félögum sem gáfu verðlaunagripi og vinninga.

- Auglýsing -