Fjöldi Íslendinga situr nú að tafli í Gautaborg í Svíþjóð. Helgarmótið Kvibergsspelen er flokkaskipt mót þar sem keppendur geta valið sér keppnisflokk við hæfi. Lilla Kvibergsspelen er ætlað fyrir keppendur undir 1600 stigum en í stigahærri flokknum eru keppendur yfir 1600 stigum og allt upp í sterka stórmeistara. Fjöldi ungra íslenskra keppenda valdi þó að tefla í efri flokknum þrátt fyrir að hafa ekki enn náð 1600. Stefnan er sett hátt og markmiðið er að fá að tefla við stigahægri andstæðinga.
Stór hópur íslenskra keppenda tekur þátt í mótinu en þeir eru alls 35 talsins, 19 frá Skákdeild Breiðabliks og 16 frá Skákdeild Fjölnis.

Fyrirkomulag mótsins er þannig að tefldar voru fjórar atskákir (15+5) á föstudagskvöldi en svo taka við tvær kappskákir (90+30) á laugardegi og tvær á sunnudegi.
Að loknum fyrsta keppnisdegi er alþjóðlegi meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson í hópi efstu manna með fullt hús, 4 vinninga af 4 mögulegum.

Mikla athygli vakti sigur Birkis Ísaks Jóhannssonar á stigahæsta keppanda mótsins, norska stórmeistaranum Simen Agdestein (2576) í 3. umferð mótsins. Simen var sem kunnugt er þjálfari heimsmeistarans Magnus Carlsen.


















