Sviptingar urðu í sjöundu umferðinni á unglingamótinu í Uppsala í Svíþjóð. Bæði Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Vignir Vatnar Stefánsson töpuðu sínum skákum. Þeir Stephan Briem og Adam Omarsson skutust því upp fyrir þá með sigrum í sínum skákum.
Stephan Briem vann sigur eins og áður sagði og það gegn stórvini sínum Vignir Vatnar sem var þá svokallað lán í óláni. Oft getur verið erfitt að tefla við menn sem þekkja þínar byrjanir vel. Kannski var samt óþarfi að tefla fátæku útgáfuna af Caro-Kann. 1.d4 a6 2.e4 c6
Líklegast ekki útflutningshæf byrjanataflmennska. Stephan fékk mun betra tafl en Vignir náði að vinna sig langleiðina inn í skákina en þá tefldi Stephan af krafti. Hann braust í gegn og þegar hér var komið við sögu fann hann rothögg.
31.Bd5+! Svartur verður að taka á d5, annars er hann mát 31…Hxd5 32.Hxd5 og svartur getur ekki tekið á e7 og staðan er hrunin.
Aleksandr lenti í erfiðri vörn gegn biskupapari Svíans Hampus Sörensen (2470) þar sem Svíinn hafði loks betur.
Adam er að eiga gott mót og hann var langfyrstur að klára sína skák í dag. Hann fann fallega fléttu gegn Martin Oksendal (2123). Skömmu eftir byrjunina fann Adam sannkallaða sleggju!
17.Hxd7!! besti leikurinn, svartur verður varnarlaus á kóngsvæng 17…Dxd7 18.Rg5 g6
19.Rxh7! fleiri sleggjur og svartur var mát nokkrum leikjum síðar!
Alexander Oliver gerði svo jafntefli í sinni skák.
Tvöföld umferð er á morgun en þá klárast mótið. Adam og Stephan hafa 4,5 vinning og eru aðeins hálfum vinningi á eftir efstu mönnum þar sem Gavrilescu tapaði óvænt í dag. Aleksandr og Vignir hafa 4 vinninga en Alexander Oliver 3,5 vinning.
Alls eru 22 ungir og efnilegir skákmenn mættir til leiks og Íslands á fimm fulltrúa 10. unglingamótinu í Uppsala. Íslendingar hafa sótt mótið vel frá upphafi og forkólfur mótsins Carl Frederik Johansson átt gott samstarf og reynst Íslendingum vel.
Vignir Vatnar Stefánsson (2484)
Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2392)
Stephan Briem (2144)
Alexander Oliver Mai (2118)
Adam Omarsson (1946)
Vignir er númer tvö í stigaröðinni en stigahæstur er stórmeistarainn David Gavrilescu (2534) frá Rúmeníu.
- Heimasíða mótsins
- Mótið á chess-results
- Beint á lichess
- Beint á chess.com
















