Fjórir Íslendingar tefla þessa dagana á EM í at- og hraðskák sem fram fer í Króatíu að þessu sinni. Atskákinni lauk í dag og varð Helgi Áss hlutskarpastur Íslendinganna. Evrópumeistari í atskák varð Alexey Sarana sem er þrefaldur Evrópumeistari, ótrúlegur árangur!

Íslendingarnir sem taka þátt eru: GM Hannes Hlífar Stefánsson, GM Helgi Áss Grétarsson, GM Jóhann Hjartarson og Gauti Páll Jónsson.

Helgi Áss Grétarsson var efstur Íslendinganna eftir fyrri keppnisdaginn með 4 vinninga af 6 og hann átti góðan seinni keppnisdag eins og reyndar flestir Íslendingarnir sem bættu sig flestir frá gærdeginum.

Helgi hóf seinni keppnisdaginn á jafntefli en svo vann hann þrjár skákir í röð. Þessi sigurganga kom honum aftur á útsendingarborðin.

Í níundu umferð vann hann fínan sigur með svörtu gegn FM Valentyn Hulka (2023). Helgi hafði svart og var þetta týpísk skák í modern byrjuninni sem Helgi hefur oft beitt með ágætis árangri. Helgi beið átekta, greip biskupaparið og vélaði svo mann af andstæðingi sínum með taktískum aðgerðum.

Í tíundu umferð lagði Helgi gríska alþjóðlega meistarann Dimitris Alexakis að velli og kom sér í fína stöðu fyrir lokaumferðina. Lykillinn að sigrinum var í 25. leik

25.Bd6! var flottur leikur. Hvítur gengur inn í leppun en á daginn kemur að svartur getur ekki nýtt leppunina og svarti hrókurinn á enga góða reiti.

Þessi vinningshrina skilaði Helga úrslitaskák við Alexander Indjic um gott sæti á mótinu. Serbinn hávaxni hefur oft reynst okkur Íslendingum erfiður en hann hefur einstaklega hvassan og skemmtilegan skákstíl. Sigur hefði fleytt Helga ansi hátt, alla leið í skipta 4. sæti en Indjic sem er nýkrýndur Evrópumeistari landsliða með Serbum reyndist of erfiður í þessari skák.

Helgi endaði með 7,5 vinning og varð hlutskarpastur Íslendingana. Helgi hóf leik númer 76 í stigaröðinni en hafnaði í 36. sæti og hagnaðist um rétt rúmlega 7 alþjóðleg atskákstig.

Jóhann Hjartarson átti svipaðan dag og Helgi Áss. Hann hóf leik á jafntefli og vann svo þrjár skákir í röð. Hann komst á útsendingarborð í 10. umferð þar sem hann vann traustan sigur með hvítu mönnunum.

Eins og hjá Helga þýddi það skák við sterkan skákmann í lokaumferðinni þar sem gott lokasæti var í boði. Eins og Helgi þá fékk Jóhann svart gegn sterkum landsliðsmanni, Danyl Yuffa sem teflir fyrir Ítali. Jóhann varð líkt og Helgi að lúta í dúk í lokaumferðinni.

Jóhann endaði með 7 vinninga og hafnaði í 81. sæti sem var aðeins neðar en styrkleikaröðin (65). Jóhann tapaði rétt rúmum 18 atskákstigum á mótinu.

Hannes Hlífar Stefánsson endaði einnig með 7 vinninga en átti ekki gott mót. Hannes endaði mótið á að vinna þrjár skákir í röð en eins og í gær voru þær allar gegn stigalægri andstæðingum. Hannes tefldi aðeins við einn skákmann yfir 2200 atskákstigum á mótinu…mögulega væri hægt að smala fleiri slíkum á þriðjudagsmót TR með tiltölulega stuttum fyrirvara! Hannes lækkar um tæp 32 atskákstig. Hannes var númer 44 í styrkleikaröðinni en endaði í 90. sæti.

Gauti Páll Jónsson var fjórði Íslendingurinn á mótinu og mátti þokkalega vel við una. Gauti tapaði þrem skákum á fyrri keppnisdegi en lokaði búðinni betur á seinni keppnisdeginum og tapaði aðeins einni skák og fékk 3 af 5. Þetta skilaði honum 6 vinningum af 11 og stigatapi upp á 8 stig. Gauti hóf leik númer 229 í stigaröðinni en endaði númer 176.

Alls hófu 439 keppendur leik á EM í atskák en á endanum varð það Alexey Sarana sem stóð uppi sem sigurvegari.

Árangur Sarana er um margt stórkostlega magnaður. Hann varð Evrópumeistari einstaklinga fyrr á árinu og varð svo Evrópumeistari með sveit Serba á EM landsliða í síðasta mánuði. Hann náði því „þrennunni“ með því að verða Evrópumeistari í atskák. Hreint ótrúlegur árangur og spurning hvort að slíkur árangur hafi hreinlega náðst áður!

Sarana var efstur ásamt þremur öðrum fyrir lokaumferðina. Þeir Deac og Martirosyan gerðu báðir jafntefli og því skilaði sigur Sarana í lokaumferðinni honum titlinum. Til þess að ná titilnum þurfti hann að vinna stórmerkilegt endatafl. Sarana hafði tvo biskupa gegn riddara og tveim peðum. Peðin féllu í valinn eitt af öðru og svo virðist sem tveir biskupar gegn riddara sé unnið endatafl!

EM í hraðskák fer svo fram um helgina og verður skemmtilegt að fylgjast með því hvort að Sarana nái „fullu húsi“ og taki EM í hraðskák líka!!

- Auglýsing -