Þrettán liðsmenn Skákdeildar Breiðabliks tóku þátt í skákhátíðinni Deltalift Open sem fram fór í Halmstad í Svíþjóð dagana 9.-11. maí.

Fulltrúar Breiðabliks á mótinu voru:

Open
Birkir Hallmundarson
Engilbert Viðar Eyþórsson
Guðrún Fanney Briem
Markús Orri Jóhannsson
Sigurður Páll Guðnýjarson
Örvar Hólm Brynjarsson

u1600
Aðalsteinn Egill Ásgeirsson
Halldóra Jónsdóttir
Hallur Steinar Jónsson
Hrannar Már Másson
Nökkvi Hólm Brynjarsson
Viktor Eyþórsson
Þórarinn Víkingur Einarsson

Þjálfari hópsins á mótinu var Björn Ívar Karlsson yfirþjálfari Skákdeildar Breiðabliks.

Tefldar voru átta umferðir, þar af fjórar atskákir (30+12) og fjórar kappskákir (90+30).
Aðstæður á mótinu voru með besta móti. Rúmgóður keppnissalur, beinar útsendingar frá efstu borðum og öllum keppendum gert hátt undir höfði, bæði í opnum flokki og í flokki u1600.

Engilbert Viðar, Þórarinn Víkingur og Aðalsteinn Egill fara yfir skákir sínar með Birni Ívari þjálfara – Mynd: Guðný Sigurðardóttir

Árangur Blika á mótinu var mjög góður. Alls enduðu fimm Blikar í verðlaunasætum í sínum stigaflokkum.

Í stigaflokki 10 varð Birkir Hallmundarson efstur með 4 vinninga. Birkir tefldi margar frábærar skákir á mótinu og var bestur í löngum baráttuskákum þar sem stöðuskilningur hann nýttist vel. Birkir hækkar um +54 stig eftir mótið.

Í stigaflokki 9 varð Engilbert Viðar í 2. sæti og Guðrún Fanney í 3. sæti, bæði með 3,5 vinning. Engilbert tefldi margar glæsilegar sóknarskákir á mótinu og Guðrún Fanney tefldi margar mjög langar skákir þar sem hún fór langt á baráttuþreki og seiglu. Engilbert hækkar um +54 stig eftir mótið og Guðrún Fanney um +7.

Í stigaflokki 8 varð Markús Orri Jóhannsson efstur með 4 vinninga. Markús Orri sýndi það á mótinu að hann hefur tekið miklum framförum í þekkingu á byrjunum og undirbúningi fyrir skákir. Það skilaði honum góðum úrslitum. Markús Orri hækkar um +58 stig eftir mótið.

Í flokki u1600 sló Halldóra Jónsdóttir í gegn. Hún varð efst kvenna með 4,5 vinning, 1,5 vinningi fyrir ofan næsta keppanda! Halldóra sýndi það á mótinu að hún er hraðri uppleið. Lærði margt nýtt í byrjunum og undirbúningi fyrir skákir og barðist af hörku.

Halldóra fékk bók eftir Judit Polgar – Mynd: Jón V.

Keppnishelginni lauk með sameiginlegum kvöldverði hópsins þar sem endað var á fótbolta á fagurgrænu sænsku túni. Sumarið er komið í Svíþjóð og veðrið lék við hópinn meirihluta ferðarinnar enda hitinn oft í kringum 20°C.

Það var fjör á lokakvöldi hópsins – Mynd: Guðný Sigurðardóttir

Þátttaka hópsins á mótinu skilaði miklu. Reynslan sem iðkendur fá af því að taka þátt í móti sem þessu er ómetanleg. Þegar lagt er upp með að undirbúa sig vel fyrir skákir og fara ítarlega yfir þær að þeim loknum er öruggt að mikið framfarastökk kemur í kjölfarið. Ekki má gleyma því að það er líka gaman á milli skáka og hópeflið dýrmætt. Það er óhætt að mæla með slíkum keppnisferðum fyrir önnur félög.

Keppendur fá hrós fyrir góða frammistöðu á mótinu og foreldrum, og fararstjórum, vil ég þakka sérstaklega fyrir gott skipulag, einstaka þolinmæði og úthald við bið á skákstað!

Pörun og úrslit í Deltalift Open
Pörun og úrslit í u-1600
Beinar útsendingar

- Auglýsing -