Vignir Vatnar Stefánsson vann báðar skákir sínar á SixDays Budapest May sem hann teflir á þessa dagana. Mótið er nú hálfnað og stendur Vignir vel að vígi í öðru sæti með 4 vinninga af 5 mögulegum. Tefldir eru þrír tvöfaldir dagar og mótið klárað á sex dögum eins og nafnið gefur til kynna.
Í fyrri umferð dagsins, fjórðu umferð, mætti Vignir indverskum skákmanni Jomon Jiman (2380). Tvítugur strákur á uppleið. Vignir hafði svart og enn vannst sigur með svörtu mönnunum í skákum Vignis, sá fjórði í röð!
Vigni beitti mótteknu drottningarbragði en lenti í töluverðum vandræðum og neyddist til að fórna skiptamun og var með hartnær tapað tafl. Andstæðingur hans leitaði þá í smiðju Bobby Fischer.
27.Bxh7?? sem betur fer var þetta ein af fáum smiðjum Fischers sem voru algjörlega glataðar! Biskupinn komst ekki út eins og biskup Fischers forðum gegn Spassky. Vignir komst inn í skákina og tók til við að yfirspila Indverjann í taktíkinni sem greinilega hefur misst aðeins hausinn eftir 27. leikinn.
Í seinni skák dagsins var andstæðingurinn ungverski FIDE meistarinn Matyas Palczert (2332), 17 ára drengur.

Vignir er fastheldinn á sínar byrjanir þessa dagana og tefldi Catalan með hvítu. Ungverjinn varðist vel og komst í endatafl sem er fræðilegt jafntefli. Hann lék hinsvegar af sér og hreinlega gaf frá sér jafnteflið.
45…He3?? var arfaslakur leikur sem tapar heilu tempói í kapphlaupinu 46.a6 og Vignir hafði betur. 45…Ha3 hefði haldið jafnteflinu.
Góður dagur úrslitalega hjá Vigni en hann hafði vissulega heppnina með sér, sem má líka!

Vignir í öðru sæti á eftir Tamas Fodor sem virðist einnig í stuði. Ein umferð er á morgun og fær Vignir svart gegn FM Ritvik Krishnan (2296). Ritstjórn rámar í að Vignir hafi teflt við hann áður í lokuðum flokkum!
- Mótið á chess-results
















