Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson tekur nú þátt á lokuðu alþjóðlegu móti, „Skákvikan í Przework“ en mótið fer fram í samnefndum bæ í suð-austurhluta Póllands. 10 manns tefla í flokknum og er Hannes þriðji stigahæsti keppandinn.
Tvær umferðir fóru fram í dag en mótið hófst í gær og því þremur umferðum lokið. Hannes hefur einn vinning að loknum þremur umferðum.
Í fyrstu umferðinni í gær mætti hann sænska stórmeistarnum Platon Galperin (2547) sem er stigahæstur keppenda. Galperin beytti skoskum leik og framan af tafli var Hannes að gera vel, vann peð og sá sænski fórnaði skiptamun til að hræra upp í taflinu.
Hannes var við það að landa vinnignum en varð fótaskortur í tímahrakinu.
Hér hefði 36…Hb8 verið vænlegt. 40.Rc6 strandar á 40…Hc5+ og svartur virðist ná að umkringja d-peðið og komast í endatafl skiptamun yfir sem ætti að vinnast. Þess í stað lék Hannes 36…Hd8?? 37.Rg6 og allt í einu þarf svartur að þjást gegn tveimur léttum mönnum hvíts. Hannes fór úr öskunni í eldinn með 37…He6?? og gafst upp eftir 38.Bxd8
Í fyrri skák dagsins í dag, 2. umferð í heildina náði Hannes að rétta úr kútnum. Hannes virtist hafa sitt á hreinu í hvassri teóríu í franskri vörn gegn pólska alþjóðlega meistaranum Jakub Fus (2455). Svartur var í erfiðri vörn og Hannes hafði mun betra tafl. Á tímabili var svarta staðan komin í lag í tölvunum en leit samt ekki vel út.
Svartur hefði mögulega getað bjargað sér hér með 37…Df5!? þar sem 38.Hbxc6 er svarað með 38…Db1+ og svartur á mögulega þráskák. Þess í stað kom 37…Dc4? og Hannes var með unnið tafl eftir 38.Hbxc6!
Í þriðju umferðinni fékk Hannes aftur á sig skoska leikinn! Að þessu sinni gegn úkraínska alþjóðlega meistaranum Egor Bogdanov (2413). Skákin fór í sama farveg og skák Hannesar við Galperin í fyrstu umferðinni nema að Hannes breytti útaf með 10…d6 í stað 10…0-0-0.
Staða Hannesar virtist í góðu lagi eins og gegn Galperin en í kringum 20. leik fór allt í vaskinn eftir tvo slaka leiki hjá svörtum. 23. leikur hvíts var erfiður viðureignar og Hannes gafst upp stuttu síðar.
Hannes mætir Pólverjanum Marcin Dziuba í 4. umferðinni á morgun en Dziuba hefur margsinnis teflt hérlendis með Víkingaklúbbnum. Næsta tvöfalda umferð er svo á sunnudeginum.
















