Landsliðsmaðurinn Guðmundur Kjartansson tefldi tvöfalda umferð á Munich Open 2024 í dag. Um var að ræða 5. og 6. umferð á mótinu.
Í fyrri skákinni, 5. umferð, mætti Guðmundur svissneska alþjóðlega meistaranum Theo Stijve (2328) og hafði hvítu mennina. Guðmundur beitti enska leiknum og fékk eitthvað frumkvæði eftir byrjunina sem skilaði biskupaparinu. Biskupaparinu breytti Guðmundur svo í peðsvinning og endataflið reyndist auðvelt fyrir okkar mann.
Í seinni umferðinni hafði Guðmundur svart gegn þýskum skákmanni Andriy Manucharian (2083) sem greinilega er að eiga gott mót miðað við stig. Guðmundur hafði svart og náði aldrei að skapa nægjanleg vandamál til að snúa taflinu sér í vil. Upp kom hróksendatafl en einfaldlega ekki nógu mikið púður í stöðunni til að Guðmundur gæti töfrað fram vinning með svörtu þrátt fyrir góða tilraun!
Jafntefli niðurstaðan og Guðmundur hefur því 4,5 vinning að loknum 6 umferðum og má nokkuð vel við una!
- Heimasíða mótsins
- Skákir á lichess
- Chess-results
















