Verkalýðsdagurinn bauð ekki upp á neina hvíld fyrir íslensku keppendurna á Ljubljana Chess Festival 2025, þar sem tvöföld umferð var á dagskrá og menn þurftu heldur betur að hafa fyrir sínu! Íslenskir skákmennirnir þrír áttu misjöfnu gengi að fagna í 5. og 6. umferð – og niðurstaðan var blanda af sigrum, jafnteflum og lærðum lexíum.
♟️ Bragi – enn og aftur sá stöðugasti
Stórmeistarinn Bragi Þorfinnsson heldur áfram að tefla traust en samt skemmtilega.
Í 5. umferð lagði hann CM Oleksandr Zhukovskyi (2147) frá Úkraínu og sýndi þar marga af sínum góðu kostum sem skákmaður.
Skákin var lengst af nokkuð dýnamísk en Bragi var aldrei í taphættu þrátt fyrir að rugga bátnum eilítið á köflum.
Í 6. umferð mættust hann og Patryk Rekuc (2188) frá Póllandi – þar endaði baráttan með jafntefli, en Bragi hafði frumkvæðið stærstan hluta skákarinnar og stóð á kafla til sigurs en missti fótanna í úrvinnslunni. Rekuc þessi er nokkuð harður í horn að taka en síðasta sumar mistókst greinarhöfundi að vinna gegn þessum unga Pólverja á minningarmóti Najdorf í Póllandi og varð einnig að sættast á skiptan hlut.
Bragi er því með 4 vinninga af 6 og í þokkalegri stöðu þegar mótið fer inn á lokahelminginn. Vonandi er Bragi að komast í gang og sýnir hvað í honum býr!
🔁 Björn – tap og sterkur endurkomusigur
Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson lenti í endurteknu efni gegn Indverjanum og Fide-meistaranum Sriansh Das (2278), sem hann hafði tapað fyrir á Reykjavíkurskákmótinu á dögunum – sagan endurtók sig og Das hafði betur enn á ný.
Björn var kannski aðeins of harður á að ná hefndum því hann svaraði jafnteflisboði Indverjans af mikilli hvatvísi og fórnaði manni að bragði…sem gekk ekki upp!
En í 6. umferð svaraði Björn með glæsilegum sigri gegn CM Nejc Herega (2201) og sýndi að karakter og keppnisskap eru ekkert minna virði en stig. Björn tefldi svipaða byrjun og hann notaði gegn Davíð Kjartanssyni á Goðamótinu á dögunum og bjó greinilega vel að þeirri þekking. Niðurstaðan var þétt og góð pósa-skák af Björns hálfu.
Björn hefur því 4 vinninga af 6, eins og Bragi og með smá áhlaupi í lokin getur niðurstaðan orðið afar jákvæð.
📉 Sigurbjörn – þrautsegja í erfiðu landslagi
FM Sigurbjörn Hermannsson átti erfiðan dag og tapaði báðum skákum sínum gegn sterkum andstæðingum.
-
Fyrst gegn Hollendingnum David Slagter (2186)
-
Síðan gegn heimamanninum CM Blaž Debevec (2117)
Þrátt fyrir úrslitin er ljóst að mótið er krefjandi en þroskandi reynsla fyrir Sigurbjörn, sem er að mæta sterkum alþjóðlegum andstæðingum í hverri umferð.
Ljubljana mótið heldur áfram á morgun með 7. umferð.
Bræðurnir halda sér í baráttunni og við fylgjumst áfram með íslensku keppendunum í skákmóti þar sem ekkert er gefins.

















