Fyrsta mótið í stórglæsilegri Le Kock mótaröð fór fram miðvikudagskvöldið 7. maí. VignirVatnar.is í samstarfi við Le Kock, Deig og Ölvisholt hafa blásið til þessarar stórglæsilegu mótaraðar þar sem glæsileg verðlaun eru í boði!

Vel yfir 50 skákmenn mættu til leiks á Le Kock á Tryggvagötu. Fjölmargir skráðu sig til leiks en mættu ekki sem gerir mótahald almennt erfiðara í skipulagningu og framkvæmd og mættu skákmenn taka það til sín að láta vita af sér ef hætt er við mætingu eftir að hafa skráð sig til leiks! Á endanum reyndist fjöldinn nokkuð þægilegur fyrir rýmið sem var í boði en hætt er við að þegar að líður á mótaröðina komist færri að en vilja!

Eftir „akademískt“ kortér hófst mótið og gekk nokkuð vel eftir það. Fjölmargir titilhafar mættu til leiks en keppendalistinn var fjölbreyttur eins og vera ber! Spennan var mikil framan af móti og ljóst að allir gátu unnið alla. Stórmeistarinn Bragi Þorfinnsson hélt lengst út með fullt hús og náði að vinna fimm fyrstu skákir sínar. Björn bróðir hans stoppaði sigurgöngu hans í sjöttu umferðinni…allt var opið!
Björn fær mögulega ekki jólakort frá Braga bróður eftir innbyrðis skák þeirra!

Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson tapaði snemma gegn Benedikt Briem en eftir það var eins og hann setti í einhvern fluggír! Sigur hans gegni Birni í 7. umferð var lykilskák!

Hannes vann Björn í 7. umferð og kom sér í oddastöðu! Mögulega vantar Björn í stöðunni hrók á h8-reitnum…hvernig það atvikaðist að riddarinn komst þangað þekkir ritstjórnin ekki!

Dagur Ragnarsson reyndist einnig í ágætis gír en viðureign hans og Hannesar í 8. umferð var algjör lykilviðureign. Hannes hafði betur með svörtu og gat leyft sér að gera jafntefli við Braga í lokaumferðinni til að tryggja sigurinn.

Skemmtilegt mót að baki en mikil barátta eftir í þessari skemmtilegu mótaröð. Skak.is hvetur skákmenn til að taka þátt, bæði til að styðja þetta frábæra framtak hjá mótsaðilum og styrktaraðilum og líka bara af því að maturinn er fjandi góður á Le Kock!

Lokastaðan – efstu menn:

  1. GM Hannes Hlífar Stefánsson – 7,5 vinningar
    60,000kr + Gjafakarfa frá Innnes

  2. IM Björn Þorfinnsson – 7 vinningar
    40,000kr + Gjafakarfa frá Innnes

  3. IM Dagur Ragnarsson – 7 vinningar
    20,000kr + Gjafakarfa frá Innnes

U2000 Verðlaun

Roberto Eduardo Osorio Ferrer vann þessi verðlaun! Roberto hefur verið einn af kjölfestum í mætingu á þriðjudags- og fimmtudagsmót Taflfélags Reykjavíkur og gaman að sjá hann uppskera eins og hann sáir!

U2000: 10,000kr gjafabréf á Le kock og Deig + Gjafakarfa frá Innnes

Efsti konan

Iðunn Helgadóttir er nýbúin að vinna sinn annan Norðurlandameistaratitil kvenna og hún hafði betur á oddastigum gegn stallsystur hennar í WCM klúbbnum, Guðrúnu Fanney Briem.

Efsta konan: 10,000kr gjafabréf á Le kock og Deig + Gjafakarfa frá Innnes

Efsti stigalausi

Daníel Hákon Friðgeirsson stóð sig vel. Hann er bróðir Dags Andra Friðgeirssonar sem er ansi lunkinn á svellinu í hraðskákinni!

Efsti stigalausi: 10,000kr gjafabréf á Le kock og Deig + Gjafakarfa frá Innnes

Stig í mótaröðinni eftir fyrsta mót

1. GM Hannes Stefánsson – 12 stig
2. IM Björn Þorfinnsson – 10 stig
3. IM Dagur Ragnarsson – 8 stig
4. GM Bragi Þorfinnsson – 7 stig
5. FM Bárður Örn Birkisson – 6 stig
6. FM Simon Þórhallsson – 5 stig
7. FM Sigurbjörn Björnsson – 4 stig
8. FM Róbert Lagerman – 3 stig
9. CM Björn Holm Birkisson – 2 stig
10. Benedikt Briem – 1 stig

➕ Stigabreytingar:

  • Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson: +70,4

  • Theódór Eiríksson: +70,4

  • FM Bárður Örn Birkisson: +35,8

Hægt er að skoða allar skákir og einstök úrslit á Chess-Results.

Myndasería frá fyrsta mótinu!

Don Roberto og „Húnninn“ að tafli
Glettið sjónarhorn í lok skákar Róberts og Björns
Salurinn á Le Kock reyndist passlegur í 60-manna hraðskákmót!
Ansi mörg kunnugleg andlit í þungum þönkum!
Hver er besti björninn?
Hinn ungi Dagur Sverrisson að tafli gegn Karli frá Le Kock sem tók þátt á mótinu ásamt því að sjá um skipulagningu með VignirVatnar.is
- Auglýsing -