Fjórir skákmenn hafa fullt hús að loknum tvöföldum keppnisdegi á opna Íslandsmótinu í skák – 100 ára afmælismóti Skáksambands Íslands sem fram fer á Blönduósi. Þeir Vignir Vatnar Stefánsson, Aleksandr Domalchuk-Jonasson, Hannes Hlífar Stefánsson og Bárður Örn Birkisson unnu allir sínar skákir í dag og mætast innbyrðis í fjórðu umferð á Þjóðhátíðardeginum.

Þessi langi keppnisdagur hófst með morgunumferð. Stigahæsti skákmaður Íslands, Vignir Vatnar Stefánsson, mætti þar búlgarskri landsliðskonu, Gergönu Pechövu.

Peycheva hvítt gegn Vigni Vatnari

Vignir vann nokkuð góðan tæknilegan sigur. Eftir stöðubaráttu í miðtaflinu náði Vignir valdi á c4-reitnum í herbúðum hvíts, plantaði þar riddara og fékk í kjölfarið óþægilegan frelsingja á c-línunni. Næstu leikir snerust algjörlega um þetta peð og Vignir náði að nota peðið sem hálfgerða tálbeitu til að plokka hvert peðið af fætur öðrum af andstæðingi sínum.

Hannes og Lenka, flestir Íslandsmeistaratitlar sem geta mögulega teflt saman!

Á sama tíma minnti Hannes Hlífar á sig með kraftataflmennsku gegn Lenku. Tveir margfaldir Íslandsmeistarar en Hannes hafði hvítt og Lenka virtist brenna skipin í þetta skiptið og það gekk einfaldlega ekki upp.

Björn Þorfinnsson í flækjum eins og venjulega

Ein skemmtilegasta skák umferðinnar var bylta þeirra Stefáns Steingríms og Björns Þorfinnssonar eins og ritstjórnin hafði í raun spáð! Stefán var vel undirbúinn en virtist þó víxla leikjum í byrjuninni. Stefán náði fljótlega að blása til sóknar og stóð ansi vel en Björn var úrræðagóður í vörninni og spriklinu og náði að lokum að nýta sér tímahrak andstæðingsins til að snúa taflinu sér í hag.

Guðrún Fanney Briem hélt jafntefli gegn Gunnari Erik en átti færi á einum stað til að fylgja eftir glimrandi byrjun úr fyrstu umferðinni. Aleksandr Domalchuk-Jonasson tefldi sannfærandi með svörtu sem og Sigurbjörn Björnsson.

Sigurbjörn tefldi skemmtilega með svörtu gegn Benedikt Þórissyni.

Í seinni umferð dagsins, þeirri þriðju var komið að alvöru titilhafa viðureignum!

Vignir lagði félaga sinn Hilmi Frey að velli

Vignir lagði Hilmi að velli. Þessir þekkja hvorn annan ansi vel og hafði það gríðarleg áhrif á ákvarðanatöku og tímanotkun strax í byrjun. Hilmir virtist vera fyrri til að hverfa frá sínum „leik“ og niðurstaðan varð auðveldari sigur fyrir Vigni heldur en flestir áttu von á.

Aleksandr Domalchuk-Jonasson tefldi mjög þétt og vann stílhreinan tæknisigur gegn Ivan Schitco. Lærdómsrík skák hjá Sasha þar sem yfirburðir biskups gegn riddara í endatafli með peð á báðum vængjum komu vel í ljós!

Hannes tefldi aftur af fítonskrafti og virðist einhvern veginn fá eitthvað „Íslandsmóts-aura“ á köflum og teflir eiginlega aldrei betur en á þessum mótum!

Síðastur til að slást í hópinn með fullt hús var svo Bárður Örn Birkisson sem lagði Björn Þorfinnsson í sveiflukenndri skák. Báðir fengu góða möguleika en Bárður var naskari í þetta skiptið.

Fjórir því með fullt hús að loknum þremur umferðum:

Í fjórðu umferðinni á Þjóðhátíðardaginn mætast á efstu borðum:

Samantekt Björns og Ingvars:

Myndasería frá öðrum keppnidegi: (2. og 3. umferð)

Myndir úr 2. og 3. umferð
Menn djúpt hugsi, Hannes og Stefán
Málin rædd á hliðarlínunni

Strembinn dagur hjá Erlingi

 

 

- Auglýsing -