Opið alþjóðlegt mót hófst í Korsíku um helgina en fjöldi íslenskra skákmanna tekur þátt á mótinu. Alþjóðlegi meistarinn Dagur Ragnarsson hefur byrjað best af íslensku keppendunum. Mótið ber heitið 10th Marina Viva Porticcio Open 2025 og er flokkaskipt.
Í efsta flokki eru íslensku keppendurnir eftirfarandi:
IM Hilmir Freyr Heimisson, IM Dagur Ragnarsson, WCM Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og WIM Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir.
Í u2000 flokknum tefla:
Hrund Hauksdóttir og Verónika Steinunn Magnúsdóttir.
Aðeins 10 efstu borð eru í beinni í efsta flokki og það var ekki fyrr en í þriðju umferð sem að Íslendingur komst í beina útsendingu. Dagur komst þá á efsta borð þar sem hann stýrði hvítu mönnunum gegn Michal Krasenkow, pólskri skákgoðsögn. Krasenkow náði mest yfir 2700 skákstig í kringum aldamótin….“when it meant something!“
Erfiður andstæðingur en Dagur mætti honum af fullum krafti í byrjun og var komin með töluvert betra tafl þegar allt fór í skrúfuna.
Hér virðist hvítur standa mun betur í flestum varíöntum, 17.0-0-0 liggur beinast við en flestir peðsleikir eru einnig góður…nema 17.g5?! sem Dagur valdi. Eftir 17…Rd7 var enn hægt að halda í horfið en 18.h4? var slakur og Krasenkow vann peð með 18…Rxd4!
Nú hefði verið auðvelt að molna niður með glataða stöðu…sem átti aðeins eftir að versna. En…Dagur hélt áfram að berjast og berjast og berjast! Krasenkow missti af nokkrum sleggjum án þess að missa niður yfirburðastöðu sína en smátt og smátt minnkuðu yfirburðirnir og loks náði Dagur einhvern veginn þráskák…kraftaverkajafntefli!
Dagur hefur 2,5 vinning af 3 að lokinni þessari skák. Dagur verður áfram í beinni í 4. umferðinni á morgun.
Hilmir Freyr Heimisson hefur ekki náð sér á strik og hefur 1 vinning af 3. Hilmir tapaði í fyrstu umferð gegn mjög ungum skákmanni frá Singapore, Kaushik Ashwath. Ashwath þessi vann það afrek í fyrra að verða yngsti skákmaður sögunnar til að leggja stórmeistara að velli. Ritstjóri mætti honum á Najdorf minningamótinu í Póllandi í fyrra og rétt hafði sigur. Mikið efni þar á ferð!
Hallgerður Helga hefur einnig 1 vinning en Jóhanna er ekki enn komin á blað.
Í u2000 hefur Hrund 2 vinninga af 3 mögulegum en Verónika hefur 1,5 vinning.
Tefld er ein umferð á dag það sem eftir er að undanskildum þriðjudeginum þar sem tefld verður tvöföld umferð, sama dagskrá og á Reykjavíkurskákmótinu.
















