Alþjóðlegu meistararnir Dagur Ragnarsson og Hilmir Freyr Heimisson hafa nú lokið sex umferðum á SixDays Budapest mótinu sem eins og nafnið gefur til kynna er teflt á sex dögum. Í dag var einföld umferð en á morgun er aftur tvöföld umferð.

Báðir tefla þeir í GM flokki. Dagur er í GM-A flokknum og Hilmir í GM-C flokknum.

GM-A

Við skildum við þá félaga meðan þriðja umferð var í gangi. Þar mætti Dagur þýskum strák Robert Stein sem er FIDE meistari. Dagur hafði svart og varð undir í miðtaflinu.

Í seinni skák gærdagsins hélt Dagur jöfnu í erfiðu endatafli eftir Petroffs-vörn.

Skákin í dag með hvítu í sjöttu umferð fór svo í skrúfuna. Serbneski stórmeistarinn Popovic henti í mikla frumkvæðis-árás eftir að kóngsindverja staða hans blómstraði aðeins of hratt í miðtaflinu.

Slæmur kafli hjá Degi sem hefur 1,5 vinning af 6 en réttir vonandi úr kútnum í lokaumferðunum.

GM-C

Hrókur Hilmis varð strandaglópur á miðju borði í þriðju umferðinni gegn Indverjanum Vivaan og á endanum kostaði það skákina.

Í fjórðu umferð kom sigur, Hilmir fékk vænlegt tafl, lék því niður en var svo betri í endataflinu og vann.

Fimmta umferðin tapaðist gegn ungverskum stórmeistara. Ferðalag svarta riddarans til a3 virkaði líkelgast ekki eftirá að hyggja.

Sigur kom í dag í sjöttu umferð. Ágætis pósaskák með hvítu mönnunum.

Hilmir hefur 2 vinninga af 6 í sínum flokki.

Ballið heldur áfram á morgun eins og áður sagði með tvöfaldri umferð.

- Auglýsing -