Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson náði sér í enn einn mótasigurinn þegar hann varð hlutskarpastur á Boyi Cup – China Youth Chess International Open Tournament 2025. Með Vigni í för var Aleksandr Domalchuk-Jonasson.

Vignir var stigahæstur á mótinu og Aleksandr var númer fjögur í stigaröðinni á þessu 24 manna skákmóti. Teflt var hratt, tvær skákir á daga og því fimm daga mót.

Fyrir lokaumferðina var Vignir með 6,5 vinning ásamt FM Quoc Hy Nguyen (2389) en hann gerði einungis jafntefli í lokaumferðinni gegn Runyi Zhou (2313) og því opnaðist búðin fyrir Vigni.

Vignir hafði svart og fékk mjög þægilegt viðtafl eftir hagstæð uppskipti þar sem hann gat notað c-línuna og svörtu reitina til að knésetja andstæðing sinn.

Glæsileg niðurstaða hjá Vigni sem endaði með 7,5 vinning í efsta sæti og hækkar Vignir um 3 elóstig á mótinu.

Aleksandr endaði með 5 vinninga og átti sveiflukennt mót. Eftir slæman keppnisdag númer tvö þá vann Aleksandr næstu tvær skákir en endaði svo með vinning í síðustu þremur umferðunum. Aleksandr tapar 12 elóstigum á mótinu.

 

- Auglýsing -