Sex umferðir eru að baki í Grand Swiss í Samarkand í Úzbekistan og í dag er hvíldardagur á mótinu áður en seinni hálfleikur hefst. Rétt er fara aðeins yfir gang mála hingað til, hetjur og skúrka ásamt því að rýna í stöðuna. Mótin (opið og kvenna) veita tvö sæti í Áskorendamótið 2026 og því er gríðarlega mikið undir. Mótið er sterkasta opna mót sem fer fram í heiminum og auk boðssæta fá aðeins topp skákmenn í heiminum að taka þátt. Heilir 94 skákmenn hafa 2600 elóstig eða hærra á mótinu.
Staðan – opinn flokkur
-
Parham Maghsoodloo er einn í fararbroddi með 5 af 6 eftir jafntefli við Arjun Erigaisi í 6. umferð. Parham byrjaði einstaklega vel og hefur haldið dampi það sem af er.
-
Hálfum vinningi á eftir (4½/6) eltir fimm manna hópur: Abhimanyu Mishra, Arjun Erigaisi, Matthias Blübaum, Anish Giri og Nihal Sarin.
Staðan – kvennaflokkur
-
Kateryna Lagno og R. Vaishali leiða með 5/6 en þær Antoaneta Stefanova og Guo Qi sitja hálfum vinning á eftir með 4½/6
Sögur fyrri hlutans
-
Sögubækur hjá Mishra: Hinn 16 ára Abhimanyu Mishra lagði ríkjandi heimsmeistara Gukesh D. í 5. umferð og varð yngsti skákmaður sögunnar til að vinna ríkjandi heimsmeistara í klassískri skák.
-
Gukesh lét ekki þar við sitja og tapaði aftur í 6. umferð, nú gegn Nikolas Theodorou, og situr því utan toppbaráttu að sinni. Gukesh þarf ekki að örvænta því hann getur ekki unnið réttinn til að tefla við sjálfan sig! Hinsvegar verður að setja spurningamerki við þessa frammistöðu hjá ríkjandi heimsmeistara.
-
Ung stjarna: Hinn 14 ára Yagiz Kaan Erdogmus hefur 4/6 og er í topp 10 eftir 6 umferðir, frammistaða sem hefur vakið athygli skákheimsins.
Hvað tekur við?
Eftir hvíldardaginn hefst seinni hálfleikur með stórviðureignum: m.a. Lagno–Stefanova og Vaishali–Guo í kvennaflokki. Í opna flokknum heldur Maghsoodloo naumri forystu inn í seinni hálfleik. Maghsoodloo hefur svart gegn Nihal Sarin í 7. umferðinni en þeir Erigaisi og Giri fá báðir hvítt gegn lægra skrifuðum andstæðingum.