Línur eru farnar að skýrast nokkuð á Haustmótinu eftir fjórar umferðir. Það lítur út fyrir að landsliðsmennirnir Dagur Ragnarsson (3,5 vinningur) og Vignir Vatnar Stefánsson (3 vinningar) ætli í eltingaleik í A-flokknum við hvorn annan. Ingvar Wu stendur vel í B-flokknum með 3,5 vinning en Stefán Bergsson hefur 3 vinninga + frestaða skák og til alls líklegur.
Fjórða umferðin var tefld í gær, miðvikudagskvöld í Friðrikssalnum í Faxafeni, húskynnum Taflfélagsins eins og venjulega.
A-flokkur
Íslandsmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson mætti blaðamanninum sem hefur verið á síðum dagblaðanna og samfélagsmiðla undanfarið, Birni Þorfinnssyni. Björn kom Vigni væntanlega verulega á óvart þegar hann valdi 1.e4 og upp kom kaffibolla-skítaafbrigði í Grand Prix. Miðað við tímanotkun var Björn líklega ekki alveg með plönin eða skilning á stöðunni á hreinu.
Vignir komst í miðtafl peði yfir en Björn hafði biskupaparið. Vignir náði að halda stjórn og einfalda í endatafl þar sem hann hélt umframpeðinu og það taldi að lokum. Vignir búinn að vinna sig vel inn í mótið eftir tapið erfiða í fyrsta umferð gegn Degi.
Fyrstu viðureigninni í A-flokki var hér löngu lokið en fréttaritari Skak.is rétt náði í skottið á Omarssonum á leiðinni út eftir stutt jafntefli. Skák sem fer kannski ekki í sögubækurnar 😉
Dagur þjarmaði að Lenku, aðallega á klukkunni en Lenka hafði þó gefið Degi nokkuð þægilegt miðtafl þegar Dagur fékk biskupaparið. Lenka fór ekki vel með viðbótartímann sinn eftir 40 leiki og lenti í miklu tímahraki og náði ekki að halda stöðunni en staðan var þá tekin að hraka jafnt og þétt. Dagur í fínum gír!
Oliver Aron náði aðeins að minna á sig. Bárður fékk betra úr byrjuninni en missti af bestu leiðinni sem hefði gefið hvítum mjög vænlegt tafl (Rxf7 í stað Rxh7). Upp kom endatafl með mislitum biskupum og þar misskildi Bárður stöðuna algjörlega, plan hans á h-línunni var feygðarflan og hvíta staðan hreinlega hrundi.
Þorsteinn tapaði sinni fyrstu skák en Björn Hólm virtist ákveðinn að nýta hvítu mennina og tefldi mjög vel og gaf Þorsteini ekkert andrými.
Aðeins jafntefli hjá bræðrunum en annars mikil barátta. Dagur hefur 3,5 vinning, Vignir 3 vinning og svo Björn Þorfinnsson 2,5 vinninga. Bárður, Björn Hólm og Oliver hafa svo 2 vinninga.
B-flokkur
Stefán Steingrímur hefur teflt hressilega í b-flokknum og hélt því áfram í fjórðu umferðinni. Stefán óð á kóngsvænginn hjá Sigurði Páli og geymdi sjálfur hrókunaréttinn. Sigurður brást ekki vel við og Stefán náði að knétsetja hvítu mennina sannfærandi.
Stefán hefur fullt hús en eina óteflda skák. Ingvar er því enn efstur eftir jafntefli í umferðinni. Of mikil uppskipti áttu sér stað í miðtaflinu til að geta valdið svörtu nægjanleg vandræði, jafntefli niðurstaðan.
Harald tefldi enn einn gambítinn, nú Smith-Morra. Harald líklega í einhverskonar gambít bingó að safna gambítum á mótinu! Nú beit gambíturinn og náði hann að leggja Benedikt að velli. Harald ríghélt í hótanir á löngu skálínunni og Benedikt fann ekki leið út.
Arnar Milutin hafði á köflum verra tafl gegn Sigurbirni Hermannssyni en hafði þetta á reynslunni í lokin.
Jón Trausti hafði lengst af hartnær unnið tafl gegn Jóhanni Ragnarssyni. Jón hinsvegar fylgdi ekki heilræði stórmeistarans Jóhanns Hjartarsonar „aldrei að fórna með unnið“. Jón Trausti gerði það hinsvegar og taldi sig hafa unnið tafl og kláruðu þeir næstu leiki með því sem Sokolov hefur líst í einni bók sinni um svipaðar aðstæður með „sameiginlegum skilningi“ um niðurstöðu skákarinnar.
Með þetta í huga gafst Jóhann upp. Uppgjöfin var hinsvegar röng, lokastaðan er jafntefli!
Skemmtileg umferð og staðan svona:
Frestuð skák Stefáns gæti sett strik í reikninginn í toppbaráttunni.
C-flokkur
Ungu strákarnir hafa verið flottir í c-flokknum. Pétur og Haukur eru efstir en Haukur lagði Robert í umferðinni auk þess sem hann lagði Arnar Breka í frestaðri skák í kvöld. Haukur lagði Roberto í skemmtlegri skák í frakkanum. Afbrigðið sem Roberto tefldi er hættulegt og hann gerði einmitt jafntefli gegn Hilmi Frey á æfingu hjá TR um daginn í sama afbrigði.
Opinn flokkur
Karma Halldórsson, annar ungur strákur heldur áfram að slá í gegn í opna flokknum. Karma lagði Þór Jökul að velli í toppuppgjöri fjórðu umferðar og hefur fullt hús, einn keppenda!
Staðan í opna flokknum: