Skákdeild KR tók upp þráðinn þar sem frá var horfið síðasta vor og hélt barnaskákmót laugardaginn 13. september sl. sem var það fjórða í röðinni. Þátttakendur voru 56 sem er nærri meðaltali þátttakenda á vormisseri. Mótshaldið gekk vel fyrir sig en nokkrir hnökrar voru á taflmennskunni og nokkuð um afleiki sem andstæðingum gekk misjafnlega að taka eftir. Krakkarnir voru greinilega í misjafnlega góðri æfingu eftir sumarið en það stendur örugglega til bóta á næsta móti sem verður annan laugardag í október. Heill mánuður framundan þar sem hægt er að æfa sig og möguleiki að gera betur á næsta móti.
Keppt var tveimur flokkum 1.-3. bekkur og 4-9. bekkur. Sá yngri hefur hingað til altaf verið mun fjölmennari en núna snerist það alveg við þannig að sá yngri var með 22 keppendum og sá eldri með 34 keppendum. Á þessu eru tvær skýringar. Nokkuð fjölmennur hópur sem var í 3. bekk á vormisseri og tefldi þá í yngri flokki er nú kominn í 4.bekk og teflir í eldri flokki. Á sama tíma eru þeir sem eru í 1. bekki að stíga sín fyrstu skref og leggja ekki strax í að taka þátt en það mun breytast þegar líður á veturinn.

Eldri flokkinn vann Eiður Jökulsson með 6,5v. í sjö skákum og leyfði bara eitt jafntefli um mitt mót við Anh Hai Tran. Annar var Liam Nam Tran með 6v og tapaði aðeins gegn Eiði en lagði aðra andstæðinga sína. Þriðji var svo áður nefndur Anh Hai Tran með 5,5v. Í yngri flokki sigraði Róbert Heiðar Skúlason 6,5v í sjö skákum. Annar var Helgi Fannar Óðinsson með 6v og þriðji var Sævar Svan Valdimarsson með 5,5v. Úrslitin réðust í sviftingasömum viðureignum efstu manna þar sem Róbert vann Helga og gerði jafntefli við Sævar. Í báðum flokkum voru alveg hrein úrslit þar sem enga stigaútreikninga þurfti.

KR-ingar þakka öllum keppendum, sem voru sér og sínum til sóma, fyrir þátttökuna og vonast til að sjá sem flesta á næsta mótti. Nánari upplýsingar um öll úrslit eru hér fyrir neðan:
Barnaskákmót KR september 2025 – yngri flokkur
Barnaskákmót KR sepember 2025 – eldri flokkur