Tvær viðureignir fóru fram í Úrslitakeppni Íslandsmóts Símans í netskák 2025 og var lítið um spennu í einvígjunum. Stórmeistararnir Helgi Áss Grétarsson og Vignir Vatnar Stefánsson fóru nokkuð örugglega áfram, Helgi 4-0 gegn Birni Hólm og Vignir 3,5-0,5 gegn Aleksandr Domalchuk-Jonassyni.
Björn hafði fína stöðu í fyrstu skákinni en segja má að allt hafi farið í vaskinn eftir peðaátið 19.Dxh6? Helgi vann í kjölfarið skiptamun og vann örugglega.
Í annarri skákinni lagðist Helgi af fullum þunga á Björn í endataflinu og sýndi hvar hann er hvað sterkastur á svellinu.
Helgi tók snemma yfirhöndina í þriðju skákinni en að mati lýsenda voru skipti hvíts á kantpeði fyrir miðborðspeði ekki góð!
Björn var hér með bakið þétt upp við vegginn gamla og góða og tók of mikla áhættu með því að opna skálínu að kóngi sínum, einvígið var í raun ráðið þegar svarti kóngurinn lenti á vergangi.
Helgi áfram með 4-0 sigur og eftir á að hyggja var 1.02 í stuðul á Helga kannski réttmætur.
Einvígið milli Vignis og Aleksandrs hófst með meiri látum. Vignir tefldi miðtaflið lystilega vel og fékk yfirburðatafl. Þá tók Aleksandr til við að sýna sinn einstaka hæfileika í að sprikla. Aleksandr fann einhvern veginn alltaf einn leik í einu til að hanga á einhverjum vír og endaði á að bjarga jafntefli í 82. leik.
Nú upphófst Catalan kaflinn í einvíginu. Báðir tefldu þessa byrjun með skiptum litum. Vignir fórnaði peði fyrir parið og sýndi mátt biskupana glæsilega í vel útfærðri skák.
Þriðja skákin var nú krítísk og því miður virtist Aleksandr einfaldlega gleyma d4 peðinu í uppnámi í miðtaflinu. Við það var svarta staðan einfaldlega orðin of sterkt og Vignir kominn með of mikið forskot í svo stuttu einvígi.
Vignir kláraði dæmið með algjörri módelskák sem minnti lýsendur mjög á Rubinstein gegn Salwe. Sú skák fær að fljóta með fyrir neðan!
Hér er klassískur sigur Rubinstein þar sem svipuð svartreitablokkering var notuð.
Fínn sigur hjá Vigni sem býður eftir sigurvegara úr viðureign Ingvars og Jóhönnu um næstu helgi.
Útsending gærkvöldsins:
Hægt er að fylgjast með á Sjónvarpi Símans eða á YouTube rás RÍSÍ eða Twitch Rási RÍSÍ
Viðureignir í 16 manna úrslitum
Drátturinn fyrir 16 manna úrslitum, sem fram fara á sunnudögum í september. Viðureignirnar, raðaðar í dagsetningarröð, raðaðist á eftirfarandi hátt:
- 7. september: Símon Þórhallsson – Bárður Örn Birkisson 4½ – 3½
- 7. september: Bragi Þorfinnsson – Dagur Andri Friðgeirsson 3½ – ½
- 14. september: Róbert Lagerman – Jón Kristinn Þorgeirsson 4-1
- 14. september: Dagur Ragnarsson – Björn Þorfinnsson 2½-3½
- 21. september: Helgi Áss Grétarsson – Björn Hólm Birkisson 4-0
- 21. september: Vignir Vatnar Stefánsson – Aleksandr Domalchuk-Jonasson 3½ – ½
- 28. september: Birkir Ísak Jóhannsson – Jóhann Hjartarson
- 28. september: Jóhanna Björg Jóhannsdóttir – Ingvar Þór Jóhannesson
Í átta manna úrslitum mætast
- Símon – Birkir-Jóhann
- Björn Þ – Bragi
- Jón Kristinn – Helgi Áss
- Jóhanna-Ingvar Þór – Vignir