Stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson náði sér í gríðarlegan seiglusigur í dag á Evrópumeistari móti öldunga og er Þröstur nú jafn þremur öðrum í efsta sæti. Hagstæð úrslit gætu þýtt Evrópumeistaratitill! Í 65+ flokknum heldur FIDE-meistarinn Þorsteinn Þorsteinsson í vonir um verðlaunasæti eftir seiglujafntefli í umferð dagsins. Stórmeistarinn Margeir Pétursson hefur verið fjarri sínu besta og er ekki í baráttu um verðlaunasæti.
50+ flokkur
Við skildum við Þröst hálfum vinningi á eftir efsta manni fyrir 6. umferð. Í henni mætti hann efsta manni, Jean-Marc Degraeve og hafði Þröstur hvítt. Skákin komst aldrei á almennilegt flug, hvorugur tók mikla sénsa og jafntefli rökrétt úrslit.
Í sjöundu umferð kom svo jafntefli gegn Mark van der Werf. Þresti var komið á óvart í umferðinni en jafnaði sig fljótt og jafntefli var samið í þurri stöðu í kjölfarið.
Nú var mikilvægt fyrir Þröst að ná góðum úrslitum í 8. umferð til að ná viðspyrnu. Þröstur mætti þýska alþjóðlega meistaranum Crisotf Sielecki, oft þekktur sem ChessExplained en hann var lengi með vinsæla YouTube rás.
Þröstur fékk reyndar eitt ansi skemmtilegt taktískt færi.
Hér hefði 31.Hxe4!! verið sóðalegt línurof í dýrari kantinum!!
Þess í stað þurfti Þröstur að hlaða í grjótharða endataflsþjöppu og á endanum sveið hann hróksendatafl með f- og g-peði gegn h-peði. Í raun frægt endatafl í íslenskri skáksögu en Friðrik Ólafsson vann sama endatafl gegn Petrosian 1959 á Áskorendamótinu. Vonandi er það góður fyrirboði fyrir morgundaginn!
Þröstur hefur 6 vinninga ásamt Jean-Marc Degreave, IM Josep Diaz og IM Fabrizio Bellia. Í lokaumferðinni hefur Þröstur svart gegn Diaz en hinir tveir mætast innbyrðis. Við vonumst auðvitað eftir jafntefli á efsta borði og sigri hjá Þresti!
65+ flokkur
Þorsteinn var efstur fyrir sjöttu umferð. Þar kom hans fyrsta tap. Skákin ekki nógu vel útfærð með svörtu, Þorsteinn fékk eiginlega slæma útgáfu af kóngsindverja og Króatinn hinumegin við borðið hélt fast á skrúfjárninu.
Í kjölfarið kom seiglujafntefli gegn stórmeistaranum Knaak. Þorsteinn fór að tefla og passíft í miðtaflinu og sat uppi með erfitt tafl og var nálægt tapi á köflum en tefldi vörnina af mikilli hörku og náði jafnteflinu.
Annað seiglujafntefli kom svo í dag, mislitir biskupar hjálpuðu Þorsteini að halda endatafli peði undir.
Gullið er runnið úr greipum Þorsteins en hann er í 5-12. sæti fyrir lokaumferðina og sigur gegn Magnus Wahlbom með svörtu í lokaumferðinni gefa einhverja möguleika á verðlaunasæti.
Margeir hefur ekki náð sér á strik í þessum flokki eins og áður sagði.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results (50+)
- Beinar útsendingar (50+) | Chess.com | lichess.org
- Chess-Results (65+)
- Beinar útsendingar (65+) | Chess.com | lichess.org