Íslenska sveitin í opnum flokki Evrópumóts landsliða í skák gerði í dag 2-2 jafntefli gegn sveit Kósóvó í viðureign þar sem á kafla var möguleiki á að hreinlega tapa viðureigninni. Kvennalandsliðið tapaði með minnsta mun í sveiflukenndri viðureign gegn Austurríki.

Opinn flokkur

Viðureignin var jöfn og spennandi…rennum yfir gang mála.

Skák Dags var fyrsta skákin til að klárast, Dagur var traustur með svörtu en fékk enga möguleika á að tefla til vinnings. Samið var í mislitum biskupum.

Guðmundur tefldi traust afbrigði gegn Caro-kann. Eina vandamálið er að það verða mikil uppskipti strax og þó Guðmundur hafi fengið þægilegra tafl fékk hann aldrei nógu mikið til að pressa almennilega til vinnings, svarta vörnin varð of auðveld eftir hóp-uppskipti.

Það er reyndar gaman að segja frá því að í þessari viðureign var Guðmundur Kjartansson í fyrsta skipti aldursforseti liðsins!

Staðan 1-1 og var lengi nokkuð ljóst að þessar tvær skákir væru líklegast jafntefli.

Aleksandr vann seiglusigur í dag

Lengi fannst flestum Aleksandr Domalchuk-Jonasson í mesta basli seint í miðtaflinu/endataflinu og frípeð svarts á e- og f-línunni litu mjög hættulega út. Tölvurnar voru aðeins hliðhollari svörtu stöðunni en þó ekkert afgerandi. Sasha hélt stöðunni á floti og virtist vera að bjarga jafntefli þegar hann náði að leika Rf3+ eftir …e3 leik svarts. Sasha gerði reyndar gott betur en það og náði á einhvern ótrúlegan að kreysta vinning úr hróksendataflinu.

63…Hc8?? voru mistökin og Sasha kláraði dæmið. 63…Ha1+ hefði haldið jafnteflinu!

Staðan 2-1 fyrir okkur en nú var Vignir í erfiðu endatafli. Liðakeppnir lúta oft öðrum lögmálum. Vignir sá í hvert stefndi aðeins fyrr í endataflinu og taldi sig þurfa að halda vinningsmöguleikum opnum þar sem Sasha gæti mögulega tapað sinni skák. Vignir hélt riddara inná í staðinn fyrir að einfalda taflið og líklegast semja on the spot. Þetta kom því miður í bakið á Vigni, Saraci náði að vinna í endatafli, skák sem Vignir hefði aldrei tapað á einstaklingsmóti!

Nokkuð svekkjandi jafntefli, höfum alltaf unnið Kósóvó frá því að þeir hófu þátttöku og fara þessi úrslit í „skammarkrókinn“ ásamt slæmri viðureign gegn Wales um árið!

Næsta verkefni Georgía-4 sem ætti að vera auðvelt á pappírnum!

Kvennaflokkur

Íslenska sveitin í kvennaflokki tapaði naumlega gegn Austurríki eftir dramatíska viðureign. Eftir viðureignina sagði liðsstjóri austurríska liðsins að hann væri ekki viss hvort það hefðu mögulega getað verið meiri sveiflur og furðuleg atvik í þessari viðureign!

Austurríska liðið komið með góðan liðsstyrk á efsta borði á meðan að í íslenska liðið vantar „okkar“ Olgu sem var í sigurliðinu gegn Austurríki á EM 2023 í Svartfjallalandi.

Dramatíkin var mikil, hvar skal byrja?

Iðunn vippaði sér í djúpu laugina og tefldi 1.e4. Annika nokkuð vanaföst og leikur alltaf 1…e5 og enn og aftur kom VignirVatnar.is að góðum notum við undirbúning skákarinnar.

Sú austurríska fór þó ekki í aðalafbrigðið með 3…Bc5 sem hún hefur alltaf teflt heldur lék 3…Rf6 og 4…Be7. Mögulega eitthvað „liðsafbrigði“ hjá Austurríki þar sem 2. borðið hjá þeim tefldi eins.

Iðunn fékk fínt úr byrjuninni og fann gott taktískt skot:

13.Rxe5! og hvítur fær yfirburðatafl í framhaldinu.

Að mati liðsstjóra hefði hér 17.Dxd6 verið rétti „liðakeppnisleikurinn“ hvítur hefur parið, svartur með veikleika og hægt að pressa án taphættu eins lengi og þarf. Gerður leikur 17.Dh5 var alveg í lagi, svartur þarf að finna 17…g6 og fara í endatafl með mislitum biskupum en skelfilega peðastöðu. 17…Hae8?? hefði í raun átt að vera tapleikur. 18.He3 eða 19.He3 og svo tvöföldin á Elíni Unni hefði gefið hvítum unnið tafl.

Iðunn missti af því og baráttan hélt áfram. Hvíta staðan þægilegra betri og líklegast einfaldast að tefla upp á biskupaparið og „vera bara spakur“. Iðunn fór hinsvegar í dýnamískar aðgerðir, bauð upp á ryksugun á drottningarvængnum. Eftir ónákvæma leiki hjá svörtum var hvítur aftur kominn með þægilegra tafl en þá var komið að Iðunni að leika nokkrum ónákvæmum leikjum og svo afleik sem missti mann í lokin. Gríðarlega svekkjandi tap.

Lenka var þá búin að tapa gegn Olgu Badelku, sterkri skákkonu. Eftirá að hyggja skildu aðgerðir svarts á kóngsvæng eftir of mikið af veikleikum og liðsskipan ekki góð heldur. Olga refsaði með hnitmiðaðri og góðri taflmennsku.

Enn á ný sýndi Hallgerður mikla seiglu. Halla stýrði hvítu og upp kom sama afbrigði og á 4. borði. Hvítur fékk þægilegra tafl en í miðtaflinu missir Halla mann þar sem riddarann á g5 vantaði reiti. Svartur tók manninn og virtist vera að ná stjórn á stöðunni þegar afleikurinn kom.

29…exd4?? og Halla refsaði með 30.He6! nú er hótunin Hxg6, Dxh5 og Dh6 með máti! Svartur í vandræðum og átti aðeins eina leið til að halda taflinu eitthvað gangandi en sá það ekki og Halla hreinlega mátaði!

Svartur gafst upp 35…Re5 er svarað með 36.Bd3#

Nú þurftum við sigur á 3. borði. Guðrún barðist og barðist en á endanum fann hún ekki leið til að tefla til vinnings og varð að sætta sig við jafntefli. Liðsstjóri Íslands leyfði jafntefli og liðsstjóri Austurríkis lét sinn liðsmann taka þráleiknum. Sú austurríska var hundfúl eftirá, vildi leika Kh3 og tefla taflið áfram, hafði hún rétt fyrir sér þar sem hvítur er næstum +4 í þeirri stöðu!

Skondið atvik átti sér stað undir lokin. Guðrún er að færa menn til hliðar og rekst í klukkuna þannig að tíminn fer á andstæðinginn. Andstæðingurinn ýtti bara til baka og var sátt við að halda bara áfram. Einhvern veginn þurfti ÞRJÁ skákstjóra til að útkljá þetta annars smávægilega mál. Maður spyr sig stundum á hvaða forsendum sumir þessara skákstjóra fá djobbið!

En á endanum dramatísk viðureign og 1,5-2,5 tap.

Kvennaliðið mætir Finnlandi í fjórðu umferð sem er á þessu móti án sinnar sterkustu skákkonu.

- Auglýsing -