Íslenska kvennalandsliðið í skák stal senunni í dag þegar liðið náði glæsilegu jafntefli gegn mun stigahærri og reyndari sveit Grikkja á EM Landsliða sem hófst í dag í Batumi í Georgíu. Í opnum flokki beið íslenska liðið lægri hlut gegn sterkri sveit Pólverja.

Opinn flokkur

Helgi liðsstjóri ásamt Íslandsvininum Ivan Sokolov, liðsstjóra Rúmeníu sem tefldu á næsta borði

Guðmundur Kjartansson hvíldi í viðureign dagsins þar sem hann mætti síðastur liðsmanna til Batumi og þurfti á hvíldinni að halda. Pólverjarnir stigahærri á öllum borðum og ljóst að verkefnið yrði erfitt:

Hannes Hlífar Stefánsson

Tvö jafntefli komu nokkuð snemma í hús. Hannes var ekki í nokkrum vandræðum með svörtu á þriðja borði gegn Kosakowski. Hannes tefldi af miklu öryggi og fínt að fá hann sterkan í gang strax!

Dagur snyrtilegur

Dagur ákvað í miðtaflinu að einfalda stöðuna og stýra taflinu í jafnteflislegt endatafl. Staðan einfaldaðist mikið og jafntefli óumflýjanlegt.

Sasha með fína frumraun

Öllu meiri usli var á borðinu hjá Aleksandr Domalchuk-Jonassyni…og venjulega! Upp kom taktískt flókið afbrigði í Catalan-byrjun þar sem hvítur hleypir svörtum í valdið frípeð en reynir svo að vinna það strax. Það tókst en þá héldu flækjurnar áfram.

Sasha virtist missa af tækifæri miðað við útsendinguna. 28.fxe3 var leikið en hvítur virðist mega taka manninn 28.Dxb5 hættulaust. Eftir það varð staðan fljótlega ófrjó og jafntefli samið.

Vignri í þungum þönkum

Eftir sat Vignir Vatnar en í erfiðu endatafli. Vignir hafði náð inn í miðtaflið og nokkurn veginn meira og minna jafnað taflið en það var alltaf einhver smá lús í stöðunni. Vignir lék ónákvæmt og lenti í erfiðri vörn sem kostaði fljótlega eftir það skiptamun. Tæknin hjá Gumularz klikkaði því miður ekki og Vignir varð að lúta í dúk.

Tap með minnsta mun niðurstaðan. Þolanleg niðurstaða að mörgu leiti en gott hefði verið að ná úrslitum hér, ekki munaði miklu!

Verkefni morgundagsins er ekki síður erfitt. Búlgarir eru mótherjarnir en þeir eru númer 22 í stigaröðinni og eiga auk þess harma að hefna frá síðasta Ólympíumóti!

Kvennaflokkur

Verkefni dagsins ekki öfundsvert fyrirfram. Grikkirnir mun stigahærri á öllum borðum en okkar stelpur voru ákveðnar í að standa sig!

Niðurstaðan varð algjör naglbítur af viðureign. Stelpurnar börðust og börðust og á tíma var Ísland eina liðið sem var lægra skrifið á pappírnum þar sem allar fjórar viðureignirnar voru enn í gangi!

Undirbúningur í skákunum gekk almennt vel, flestir fengu upp það sem þeir bjuggust við. Iðunn mundi ekki undirbúninginn í ca. 9. leik

Iðunn lék 9…c6?! sem aðeins ónákvæmur. 9…Rb6 var í undirbúningnum og eins hefur Kramnik leikið hér 9…b6. Taflið svosem í lagi og 14…b6 hefði haldið svörtu stöðunni traustri en 14…b5? voru gróf strategísk mistök. Í kjölfarið urðu holurnar á drottningarvængnum og miklar og ákvað Iðunn að gefa skiptamun til að blíðka goðin en það dugði ekki til.

Grapsa greip sín færi en hún er 1. varamaður Grikkja

Tæknin hjá Grapsa var kannski ekki upp á 10 en sigurinn hjá henni aldrei í hættu. Baráttan hjá Iðunni þó til fyrirmyndar. 64 leiki í skák sem var tæknilega töpuð í 20. leik. Liðið gaf aldrei punkt á úrslitaspjaldið og það hélt baráttuþreki liðsins gangandi!

Lenka var traust!

Dagsskipun Lenku var að tefla traust, Stravroula er þeirra langsterkasta skákkona og mikilvægt að tapa ekki með hvítu á fyrsta borði til að eiga möguleika í viðureigninni. Lenka hafði lengst trausta stöðu og aðeins betra tafl. Fjandinn varð eilítið ljós á kafla en hitinn minnkaði snöggt og Lenka sat eftir með endatafl sem hún gat ekki tapað. Stavroula bauð jafntefli eftir Dxb3 en Lenka reyndi áfram. Sú gríska fækkaði peðunum jafnt og þétt og hélt endataflinu.

Þrátt fyrir að vera undir var mikil barátta. Guðrún var lengst af með yfirburðatafl gegn andstæðingi sínum en skák Hallgerðar í miklu dýnamísku jafnvægi…allt gat gerst!

Guðrún grimm

Guðrún var klár í bátana fyrir flestar sviðsmyndir úr byrjanakerfi Christodoulaki en hana var nokkuð auðvelt að lesa enda mikill fjöldi skáka hennar aðgengilegur. Christodoulaki hefur nokkuð verið í O’Kelly sikileyjarvörn auk einstaka Caro-kann en liðsstjóri tippaði á rétt, Frakkinn var það!

Christodoulaki átti ekki sinn besta dag

Guðrún leitaði í vopnabúr VignirVatnar.is og tefldi uppskiptaafbrigðið. Hvítur fékk þægilegt tafl og sú gríska fór að vera eitthvað ráðvillt í miðtaflinu og setti menn sína á furðulega reiti. Guðrún fékk vænlegt tafl en lék nokkrum „NPC leikjum“ en fékk þrátt fyrir það tækifæri á rothöggi.

24.Dd3? var yfirborðskenndur leikur og svartur náði að rétta úr kútnum. 24.Bf4! hefði líklegast þvingað uppgjöf á staðnum! Svartur náði í staðinn hagstæðum uppskiptum og eftir 31…Db4! hélt liðsstjóri að þjáning væri framundan.

Endataflið eftir 32.Dxb4 33.Rxb4 minnir óneitanlega mikið á Saidy-Fischer. Christodoulaki gefur sig út fyrir að kenna skák þannig að hún ætti að kannast við þessa skák og hefði þá væntanlega stefnt á hrókakaup og tefla endataflið svipað og Fischer…sjá hér:

Sú gríska lét hinsvegar glepjast af óvölduðu peði á a2 sem var gildra sem Guðrún lagði. Hvítur fékk endatafl sem ekki er hægt að tapa og örlitla pressu. Hér molnaði sú gríska alveg niður. Fyrst gaf hún peðið sitt á b7 full baráttulítið og loks lék hún hinum fáranlega veika leik …f5 sem skilur eftir holur fyrir hvíta kónginn. Því miður klikkaði úrvinnslan og vinningurinn rann Guðrúnu úr greipum.

Hallgerður var hetjan!

Ekki í fyrsta skiptið og vonandi ekki það síðasta var komið að hinni frægu „Höllu-seiglu“ en hún tefldi mjög krefjandi og dýnamíska skák gegn Pavlidou. Hallgerður náði að kortleggja byrjanakerfi hinnar grísku nokkuð auðveldlega og lenti ekki í neinum vandræðum í byrjuninni. Við tók þung og löng stöðubarátta! Hvítur reyndi að undirbúa e4 og svartur að búa sig undir að takast á við þá framrás!

Halla var lengst af í góðum málum og ákvörðun hennar að breyta sér í Jóhönnu Björg með …g5 og …h5 framrás var meira að segja ákvörðun sem tölvurnar eru sáttar við! Pavlidou reyndi að sækja en Halla hélt alltaf stjórn á stöðunni, krefjandi stöðu með mikið af mönnum og óræðum pælingum.

Pavlidou teygði sig of langt

Pavlidou ætlaði ekki að sætta sig við skiptan hlut og endaði á að brenna allar brýr með því að tefla til vinnings í stöðu sem bauð ekki upp á það í stað þess að tefla upp á jafnt endatafl. Refsingin var sú að Halla fann mátnet og sú gríska varð að gefast upp. Liðsstjóri hafði þá þegar beðið þriðja borð um að bjóða jafntefli, því var reyndar hafnað fyrst um sinn en jafnteflið óumflýjanlegt og frábær úrslit liðsins!

Enn og aftur, frábær úrslit og líklegast í fyrsta skipti sem að kvennaliðið tapar ekki í fyrstu umferð á EM en verkefnin í fyrstu umferð eru iðulega mjög erfið!

Verkefnið verður ekki síðra á morgun. Ísland mætir ógnarsterkri og reyndri sveit Úkraínu-kvenna sem eru jafnan í toppbaráttu á þessum mótum.

- Auglýsing -