Íslenska sveitin í opnum flokki Evrópumóts landsliða í skák vann fínan 4-0 sigur gegn Georgíu-4 í fjórðu umferð. Kvennaliðið gerði hálfgert kraftaverkajafntefli 2-2 gegn Finnum þar sem allar skákir unnust á svart! Serbar eru efstir í opnum flokki en Pólverjar kvennamegin.
Opinn flokkur
Verkefni dagsins var viðureign við stórfurðulega samsetta sveit Georgíu-4. Aldursdreifing og stigabil er með því móti að mögulega var sveitin sett saman með einhverskonar lottó úrdrætti?! Sveit Kósóvó kom inn í mótið á síðustu stundu þar sem þeir náðu sér í fjárstyrk til að mæta og þá var sveit Georgíu-4 bætt við svo ekki stæði á stöku. Skyldusigur hér á ferð og ekkert klikkaði í þeim efnum.
Hannes mætti ungri stúlku. 14.b3? var ævintýralega vitlaus í stöðunni:
14…De5 með tvöfaldri hótun vafðist ekki fyrir Hannesi.
Dagur náði sér líka í auðveldan sigur. Dagur hafði hvítt og tók til við að hlaða hverju stöðulegu trompinu á fætur öðru upp þar sem hvítur tók alla slagina og svarta staðan hrundi. Þægilegur og öruggur sigur.
Vignir gjörsamlega straujaði sterkasta mann sveitarinnar, IM með 2370. Vignir fékk yfirburðatafl með hvítu, vann drottningu fyrir tvo menn og hafði betur í öllum taktískum aðgerðum skákarinnar.
Guðmundur náði góðum endataflssigri þar sem biskup hans var sterkari en riddari hvíts í baráttunni.
Næsta verkefni er svart á efsta borði gegn sveit Austurríkis sem er nokkuð þétt sveit!
Kvennaflokkur
Ísland mætti Finnum í dag. Finnska sveitin oft verið sterkari en þó nokkur reynsla í stelpunum á efstu borðum.
Hallgerður er líka reynd og hún mætti Heini Puuska á öðru borði. Hallgerður hefur verið í góðu stuði á þessu móti og þegar menn tefla vel og fá smá heppni í kaupbæti, þá er gaman að vera til!
Hallgerður stóð þó höllum fæti lengst af i þessari skák og var þetta í raun slakasta skák hennar á mótinu til þessa. Puuska hafði þægilega stöðu og óþægilega pressu.
Puuska lék ónákvæmt hér 23.Bxf8?? þegar 23.Hbb7 gefur yfirburðatafl. Svartur hefur ekki tíma í 23…Bxc5 24.dxc5 Hxc5 þar sem hvítur loftar bara út og svartur nær ekki að valda 7. reitaröðina.
Eftir gerðan leik fékk Halla sénsinn!
Hér hefði 23…Hb6! algjörlega bjargað svörtum. Hrókarnir verða virkir og engin vandamál á 7. reitaröð útaf máthótunum í borði. Ef eitthvað er væri svartur líklegri að fá færi í kjölfarið.
Sú finnska hélt áfram að reyna að sigla umframpeðinu í höfn í hróksendataflinu í kjölfarið. Halla sá sér þó leik á borði með 37…Ha4 og setti upp smá leikrit eins og hún hefði lítinn áhuga á skákinni.
Hér sit ég í makindum í liðsstjóra stólnum og sé undrunarsvip frá Guðrúnu á borðinu við hliðina. Ég stend upp og sé að skák Höllu var að ljúka. Grunaði mig að Puuska hefði gleymt sér og fallið….nei…
38.a6?? og svarið 38…e5 og mát!
Ótrúleg redding og þriðja skákin þar sem Halla hreinlega mátar andstæðing sinn með kónginn út á miðju borði!
Skák Iðunnar var fyrst stöðubarátta með mikilli undiröldu en breyttist svo í eitthvað handahófskennt hjartalínurit. Sú finnska fórnaði manni fyrir gríðarlega ógnandi peðamassa. Iðunn fann gott mótspil og náði að klekkja á þeirri finnsku í tímahraki.
Mjög óræð og erfið staða og t.a.m. átti svartur nánast mát hér:
35…Rf6! undirbýr að loka búðinni og máta! Iðunn var hinsvegar bara praktísk, tók liðið og fórnaði svo til baka og knúði fram uppgjöf.
Staðan 2-0 fyrir Ísland úr skákum sem litu ekkert sérstaklega út á köflum!
Guðrún tefldi sína byrjun vel að vanda. Þrátt fyrir að andstæðingur hennar hafi ekki teflt eins og búast hefði mátt við var Guðrún klár með hugmynd úr smiðju byrjanabanka Vignis og Birkis Ísaks. Ha3-e3-a3 er skemmtileg manúvering í þessum stöðum til að skemma hrókunarrétt svarts. Hvíta staðan var alltaf eitthvað betri
Hér fórnaði Guðrún skiptamun með 22.Hxb6 en líklegast hefði hinn spaki 22.Ha7 gefið hvítum þægilegt tafl þar sem f7 er ofan í ef svartur tekur á h3.
25.e5? var hinsvegar of mikið ofan á fórnina. Hvítur gat verið spakur með 25.g4 og ágætis stöðulegar bætur. Í kjölfarið komu ónákvæmir leikir á báða bóga en flæði skákarinnar var komið til þeirrar finnsku og hún vann sigur.
Dagsskipunin var að vera traustur með hvítu og má segja að það hafi að mörgu leiti gengið eftir, mistökin komu í miðtaflinu. Lenka var líka traust framan af sinni skák.
Lenka virtist fá þægilega stöðu og fína pressu á miðborðspeð svarts. Svarta staðan var hinsvegar traust og ekkert auðvelt að komast áfram. Lenka fann ekki gott plan í stöðunni og fór í vafasamar aðgerðir á kóngsvæng og sú finnska greip frumkvæðið og fórnaði sig í gegnum hvítu stöðuna.
Niðurstaðan 2-2 og eins og áður sagði, allar skákir unnust á svart og eiginlega allar þróuðust þannig að hvítur hafði betra eða unnið!
Næst á dagskrá er svart á fyrsta borði gegn liði Litháen.
- Heimasíða mótsins
- Chess-results – opinn flokkur
- Chess-results – kvennaflokkur
- Beinar útsendingar – Opinn flokkur
- Beinar útsendingar – kvennaflokkur
- Bein lýsing (ECU TV)