Skákdeild Breiðabliks læddist upp fyrir TR og Fjölni með sigri í næstsíðustu umferð áEM Taflfélaga í dag á Ródos á Grikklandi. Fjölnir og TR náðu sér ekki almennilega á strik í umferð dagsins en Akureyringar náðu sér í góðan sigur og blönduðu sér í baráttuna um efsta íslenska liðið!

Skákdeild Breiðabliks

Blikar mættu Sharks 4NCL frá Englandi og unnu nokkuð þægilegan 4,5-1,5 sigur. Fjögur efstu borðin unnu og það nægði.

Blikar mæta SG Wintherthur frá Sviss í lokaumferðinni og eiga alveg raunhæfa möguleika á að ná úrslitum þar. Enn og aftur, Hilmir Freyr í banastuði með 5,5 vinning af 6 mögulegum! Gaman að sjá strákinn mættann aftur í form!

Taflfélag Reykjavíkur

TR mætti sveit frá Slóvakíu, sömu sveit og Fjölnir áttu í fullu tré við fyrr í mótinu. Skemmst er frá því að segja að lítið féll með TR-liðinu í þessari viðureign.

 

Framan af litu margar viðureignir bara nokkuð vel út en lukkudísirnar voru algjörlega fjarverandi í dag. Mest svekkjandi var kannski að Adam skildi ekki fá að klára góða kóngsindverja skák. Andstæðingur Adams bombaði byrjuninni út og hafði mikið tímaforskot…Adam tók kröftuglega á móti, fórnaði nokkrum peðum og endaði á að fá stórhættulega sókn. Sóknin hefði átt að bera árangur en í 40. leik vantaði einn leik

40…Rf4! hefði lokað búðinni en þess í stað slapp hvítur með skrekkinn og fékk jafnteflið.

TR mætir stigalægri sveit frá Þýskalndi í lokaumferðinni.

Fjölnir

Lokatölurnar í viðureign Fjölnis voru eiginlega fáranlegar miðað við gang mála. Fjölnismenn áttu fína sénsa á borðum 1, 2 og 6 en fengu hálfan vinning úr þeim skákum. Það má einnig nota tækifærið og biðja Fjölnismenn forláts en þeir voru auðvitað jafnir og efstir ásamt TR-ingum fyrir þessa umferð af íslensku liðunum!

Fjölnismenn mæta sveit frá Þýskalandi í lokaumferðinni og ættu að eiga þokkalega möguleika.

Sf. Akureyrar

Akureyringar náðu í mjög góðan sigur gegn efnilegri sveit Davit Jojua’s ChessClub. Halldór B og Bogi höluðu inn viningunum.

Akureyringar mæta þýskri sveit í lokaumferðinni.

Dímon

Dímon töpuðu í dag en gleðifréttirnar voru þær að Ólafur Örn náði sér í skilyrtan CM-titil. Skilyrðið er að Ólafur þarf að ná 2000 skákstigum, þá verður hann CM!

Dímon fá sveit frá Wales á morgun.

Sveit SuperBet er með pálman í höndunum eftir sigur í toppuppgjöri sveitanna sem höfðu unnið fyrstu fimm viðureignir sinar. Aðeins sigur Gukesh gegn Erigaisi skildi á milli!

Ísland í kvennaflokki

Lítið gekk upp hjá stelpunum í kvennaflokki í dag. Stórt tap gegn stigalægri sveit og eins og í opna flokknum er bæði þreyta og veikindi komin í mannskapinn.

Wasa frá Svíþjóð er verkefnið í lokaumferðinni. Monaco eru búnar að vinna kvennaflokkinn.

Mótið fer fram í opnum flokki (102 sveitir) og kvennaflokki (20 sveitir) og stendur yfir í sjö umferðir frá 19. til 25. október.

Alls eru sex íslensk lið skráð til leiks af 122. Í opnum flokknum eru það:

  • Taflfélag Reykjavíkur (nr. 38)
  • Skákdeild Breiðabliks (nr. 43)
  • Skákdeild Fjölnis (nr. 46)
  • Skákfélag Akureyrar (nr. 58)
  • Dímon (nr. 99)

Í kvennaflokki er kvennalið sem teflir undir nafni Íslands

  • Ísland (15)

Alls tefla 38 skákmenn fyrir Íslands hönd á Ródos og flestir sterkustu skákmenn þjóðarinnar. Aðeins fjórar þjóðir eru fjölmennari en Ísland sem er magnað en það eru: England, Þýskaland, Holland og Grikkland.

 

- Auglýsing -