Benedikt Briem er nú einn í efsta sæti á Lagos Open í Portúgal en hann lagði pólska FIDE-meistaranum Kacper Tomaszewski að velli í sjöttu umferð eftir glæsilegan viðsnúning í krefjandi skák. Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson vann sína skák, hefur unnið allar sínar tefldu skákir og þeir félagar mætast í sjöundu umferð og hefur Benedikt hvítu mennina.
Benedikt hafði hvítt gegn Kacper og vantaði slagkraft í byrjanataflmennskuna og fékk Pólverjinn fljótt betra tafl og Benedikt kominn í vörn. Á köflum leit út fyrir að svartur væri hreinlega nokkrum leikjum frá því að klára dæmið en Benedikt fann alltaf leiki til að halda taflinu gangandi.
Sá pólski missti svo þráðinn og náði engan veginn að aðlagast nýjum aðstæðum og tefldi vörnina fáranlega og fékk tapað tafl. Í blálokin fékk sá pólski einn séns á að hrifsa svo jafnteflið úr klóm Benedikts en bardagaþrekið virtist algjörlega á þrotum.
Mikil seigla og baráttugleði sem Benedikt hefur sýnt á þessu móti!
Vignir náði öruggum sigri eins og í gær. Andstæðingur Vignis lék fáranlegum peðsleik 7…e5 sem gefur peð fyrir gjörsamlega algjörlega ekki neitt. Má segja að restin af skákinni hafi hreinlega verið æfing í raðtækni fyrir Vigni.
Staðan á mótinu er eftirfarandi:

Frábært hjá Benedikt sem hefur aðeins misst niður jafntefli gegn stigahæsta keppanda mótsins. Slæmu fréttirnar eru að þeir félagar mætast eins og áður sagði í 7. umferð og hefur Benedikt hvítu mennina. Góðu fréttirnar eru hinsvegar að það er öruggt að það verður Íslendingur í efsta sæti eftir 7. umferðina!
Vert er að minna á skráningu á mót þeirra félaga á Le Kock sem fram fer síðar í mánuðinum hvar Simon Williams mætir til leiks!
Lagos Open er 9 umferða mót með einum tvöföldum degi en að öðru leiti er ein skák á dag. Vignir er næststigahæstur á mótinu á eftir indverskum alþjóðlegum meistara og Benedikt er sjöundi í stigaröðinni. Alls eru 74 keppendur á mótinu.


















