Á glæsilegri uppskeruhátíð Umf. Fjölnis í Keiluhöllinni nýlega var tilkynnt um val á skákkarli og skákkonu Fjölnis fyrir árið 2025. Annað árið í röð urðu þau Emilía Embla B. Berglindardóttir og Dagur Ragnarsson fyrir valinu.
Emilía Embla varð á árinu stúlknameistari Reykjavíkur annað árið í röð. Hún vann öll bikarsyrpumót stúlkna á árinu, vann Friðrikssyrpumót og efsta sæti stúlkna á öllum Syrpumótunum. Emilía Embla vann ásamt skáksveit Rimaskóla Íslandsmót barnaskólasveita 2025 og fylgdi skáksveitin sigrinum eftir með 3. sæti á Norðurlandamóti barnaskólasveita í Helsinki nú í haust. Áhugaverðasti árangur Emilíu Emblu á árinu var líkast til 3. sæti í Opnum flokki á fjölmennu Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur. Loks má geta þess að nú í lok árs vann Emilía Embla Íslandsmeistaratitil stúlkna í aldursflokknum U14.
Dagur sem valinn var íþróttamaður Fjölnis 2024, hefur á árinu 2025 fylgt eftir góðum árangri frá fyrra ári. Í janúar náði hann sigri á alþjóðlega skákmótinu New York Blitz Fuel GM/IM þar sem 10 þátttakendur tefldu allir innbyrðis. Dagur var í A-sveit Skákdeildar Fjölnis sem vann, annað árið í röð, Íslandsmót skákfélaga með fullu húsi vinninga. Þá sigraði Dagur Boðsmóti Taflfélags Reykjavíkur og A flokkinn á Haustmóti TR. Loks sigraði Dagur Skákmót Garðabæjar. Dagur var valinn í landslið Íslands til þátttöku á EM landsliða sem haldið var í október sl. í Georgíu. (Ljósmynd: Gunnar Jónatansson)
- Auglýsing -














