Fyrsta keppnisdegi af þremur á Heimsmeistaramótinu í atskák lauk í dag í Doha í Katar. Vignir Vatnar Stefánsson (2463) er eini íslenski keppandinn en á mótinu eru nánast allir sterkustu skákmenn heims. Heimsmeistaramótið í hraðskák tekur svo við 29. desember. Í dag voru tefldar 5 af 13 umferðum í atskákinni.

247 skákmenn taka þátt í opnum flokki í atskákinni og er Vignir númer 146 í stigaröðinni. Stigahæstur keppenda er Norðmaðurinn Magnus Carlsen (2824) sem hefur oftast unnið Heimsmeistaramótið í atskák, alls 5 sinnum frá því mótið var haldið árlega með núverandi fyrirkomulagi árið 2012. Núverandi heimsmeistari er Rússinn Volodar Murzin sem vann nokkuð óvænt í fyrra í New York. Carlsen hætti þá keppni eftir atta umferðir eins og frægt er orðið.

Rennum yfir gang mála á fyrsta keppnisdegi!

1. umferð

Vignir með svart gegn Jaime Santos Latasa (2667) í fyrstu umferðinni. (Mynd: Óskar Hákonarson)

Vignir fékk strax erfiða pörun í 1. umferð en þar mætti hann einum sterkasta skákmanni Spánverja, Jaime Santos Latasa (2667). Þeir mættust reyndar á Íslandsmóti Skákfélaga í síðasta mánuði en skildu þá jafnir í stuttri skák þar sem Vignir hafði hvítt.

Vignir beitti 3…Be7 afbrigðinu gegn 3.Rc3 í franskri vörn sem er nokkuð nýmóðins leið í hinni ódrepandi frönsku vörn. Vignir tók á sig stakt peð og var lengst af mjög nálægt því að jafna taflið en hvítur hafði örlítið frumkvæði til að vinna með. Snemma í miðtaflinu var Vignir búinn að jafna taflið samkvæmt tölvunum en hvítur samt með þægilegri stöðu í praktískri skák yfir borðinu.

Spánverjinn herti tökin jafnt og þétt og fékk mjög hættulega sókn. Segja má að hann hefði klárað dæmið með því að velja réttan reit fyrir drottningu sína, f5 í stað e4 sem hann valdi. Gerður leikur, 34.De4? gaf Vigni færi á að jafna taflið og nokkuð rúmlega það!

Hér hefði 34…Re7! bjargað taflinu og gefið svörtum pressu. Þar sem það er oní á h5 er besta leiðin á hvítt líklegast að verjast peði undir í endatafli með þungum mönnum. Vignir lék 34…Hd8? og þá var taflið tapað.

Augu flestra eru á stigahæsta skákmanni allra tíma, Magnus Carlsen en margir fylgjast með skákum hans á NRK sjónvarpsstöðunni. Maggi tók fínan endatafls-afturkreysting gegn Ítalanum Lorenzo Lodici. Magnus enn og aftur „æðri“ í endatöflunum. Lodici einfaldaði málið kannski fullmikið fyrir Magnus með 36…Ke6?? en svo virðist sem menn eigi til að molna niður gegn Magnusi af einhverskonar lotningu.

2. umferð

Vignir þurfti nú að rétta úr kútnum og mætti Kazaka, Abilmansur Abdilkhair (2262). Abilmansur 22 ára að aldri, mun hættuminna en 14 ára Kazakar með 100 stigum minna! Vignir beitti „Birkir-Ísak-prep“ og lék 3.Rbd2 og fækk þægilega stöðu gegn pirc/modern-stöðutýpunni sem kom upp.

Vignir lék þó ónákvæmt í 11. leik og upp kom staða þar sem svartur náði ógnartökum á d4-reitnum og seinna d-línunni. Verra tafl á Vigni, kannski ekki alveg í köðlunum en þurfti að verjast nokkuð vel. Vignir gerði það og var kominn yfir það versta þegar Kazakinn missti þráðinn.

36…Dc3?? fór úr jöfnu tafli í tapað tafl. 37.fxe7 Dxg3+ og það er eins og Kazakinn hafi misst af 38.Dg2 og gafst upp í kjölfarið.

Mikilvægur sigur fyrir Vigni upp á sjálfstraustið, alltaf fínt að komast á blað. Auðvelt að lenda í að vera smá ofpeppaður á svona móti!

Magnus lenti í mjög krefjandi skák með svörtu gegn David Paravyan, mjög sterkum Rússa. Taflið var lengst af í lagi hjá Magnúsi, eitthvað verra framan af en kóngur Magnúsar var í smá klandri. Magnus náði að laga til í stöðunni og enn og aftur kom þessi molnun hjá andstæðingnum.

Staðan er erfið en 32.exd5 er eiginlega fráleitur afleikur á þessu getustigi þrátt fyrir tímahrak. Menn einhvern veginn missa alltaf hausinn gegn Manga. 32…De2+ og svartur vinnur í örfáum leikjum.

3. umferð

Vignir með svart gegn skákgoðsögn frá Kúbu, Leinier Dominguez (Mynd: Óskar Hákonarson)

Andstæðingur Vignis í 3. umferð var úr efstu hillu. Sjálfur Leinier Dominguez (2703) sem teflir fyrir Bandaríkin en er fæddur og uppalinn á Kúbu. Leinier er þekktur fyrir þéttleika í endatöflum enda er mesta skákgoðsögn í sögu Kúbu sjálfur Jose Raul Capablanca.

Aftur kom upp 3…Be7 afbrigðið í franskri. Greinilegt var að Dominguez hafði ekki náð að kynna sér skák Vignis úr 1. umferð því hann tók sér góðar 3 mínútur í 4. leik sinn. Skákin þróaðist ekkert ósvipað og skákin úr fyrstu umferð. Vignir með stakt peð og andstæðingurinn búinn að hlaða hrókunum á Elínu Unni (e-línunni).

Vignir komst í endatafl með jafnt á liði en hér sýndi Dominguez hvers vegna hann hefur náð yfir 2750+ í kappskák. Endatöflin sterk hjá honum og Vignir náði ekki að halda þræðinum með aðeins veikari peðastöðu. 29…Dd7? tapaði peði en 29…De5! hefðu mögulega haldið jafnvæginu. Hvítur getur forðast þráskák með því að gefa biskupinn á f1 en mun erfiðara hefði verið að vinna það drottningarendatafl. Eins og skákin tefldist var lítið eftir.

Magnus lagði Eduardo Iturrizaga að velli í þessari umferð. Magnus fékk mun betra tafl með hvítu en fór kannski erfiðu leiðina í úrvinnslunni. Enn og aftur þurfti hann að sýna æðsta stig af efstu hillunni í endatöflum! Leikþröngin í lokastöðunni glæsileg, svartur uppiskroppa með reiti á Elíni Unni fyrir hrókinn!

Enn tíu skákmenn með fullt hús þegar hér var komið við sögu, Magnus einn þeirra.

4. umferð

Vignir flettir upp andstæðingi sínum fyrir fjórðu umferðina (Mynd: Óskar Hákonarson)

Vignir mættir indverskum stórmeistara, Harikrishna, í 4. umferðinni. Hér var reyndar á ferðinni sami þrjótur og hafði af honum sigurinn í Portúgal fyrir skemmstu. Vignir þurfti þá að taka hjásetu vegna Íslandsmótsins í netskák sem kostaði sigur á oddastigum. Þeir mættust einnig innbyrðis þar og gerðu jafntefli. Aftur var teflt uppskiptaabrigið í slavneskri vörn, eins og í Portúgal.

Skemmst er frá því að segja að Vignir var aldrei í taphættu en fékk heldur ekki mikla möguleika á að veita Indverjanum skráveifu. Besti sénsinn var líklega snemma í miðtaflinu.

Hér lék Vignir 20.b3?! sem er líklega of linur leikur. 20.e4! er meira í anda stöðunnar, hvítur vill opna taflið með svarta kónginn á miðborðinu og hvítur er meira en +1 í tölvunum eftir þann leik.

Athyglisvert að Indverjinn hefur aðeins 2293 stig í atskák en margir sterkir skákmenn tefla atskákina lítið, mótasenan á Íslandi (vikuleg reiknuð mót) er t.d. mun þéttari en víða í Evrópu og heiminum þegar kemur að þessu!

Magnus að tafli í Doha (Mynd: Óskar Hákonarson)

Magnus hélt áfram góðu gengi sínu hér og spólaði yfir einn sterkasta skákmann Spánverja, David Anton, með skemmtilegri taflmennsku. Magnus fórnaði peði með svart og frumkvæði hans óx með hverjum leik þar til hvítur lagði niður vopn í 28. leik.

Magnus nú efstur ásamt Arjun Erigaisi með fullt hús, 4 vinninga af 4 mögulegum.

5. umferð

Í fimmtu umferðinni fékk Vignir aftur andstæðing frá Kazakhstan, Edgar Mamedov (2302). Atskákstigin aftur nokkuð lægri en búast mætti við þar sem Edgar er stórmeistari. Vignir hafði svart og leitaði nú í eigin vopnabúr af VignirVatnar.is og tefldi …Bd6 gegn drottningarbragði.

Vignir fékk fína stöðu en Kazakinn náði að þenja sig á kóngsvæng og fékk ógnandi stöðu. Vignir náði tökum á sókninni og eftir slakan leik 28.e4? fékk Vignir mun betra tafl. Úrvinnslan klikkaði, vitlaus kall fór á e4 reitinn í 39. leik og þó Vignir stæði enn betur var vinningurinn mjög torsóttur. Fór svo að Mamedov hélt á endanum jafnteflinu, eilítið svekkjandi niðurstaða.

2 vinningar af 5 hjá Vigni í dag, ekki gott en ekki slæmt. Mjög viðunandi niðurstaða ef hann hefði klárað þessa skák gegn Kazakanum.

Stutt spjall við Vigni:

Magnus mætti Arjun Erigaisi í toppuppgjöri tveggja sigurstranglegra skákmanna á mótinu. Magnus hafði hvítt en hikaði eilítið gegn indversku afbrigði Erigaisi, skemmtilegt afbrigði sem nokkrir íslenskir skákmenn hafa tileiknað sér. Magnus fékk lítið úr byrjuninni en komst í þægilegt endtafl þar sem hann var peði yfir.

Þetta hróksendatafl er þekkt sem jafntefli í fræðunum, hrókur + 4 peð gegn hrók + 3 peð á sama væng en engu að síður vann Capablanca frægt endatafl með þessum liðsmun sem lengi vel skekkti rétt mat á endataflinu.

Carlsen virtist á einum tímapunkti vera að fara að snúa á Indverjann en Erigaisi reyndist vandanum vaxinn í fræðunum og hélt sultuslakur endtaflinu hrókur og f- og h-peð gegn hrók. Sterkar taugar í bland við góða þekkingu þarna hjá Indverjanum.

Magnus og Erigaisi deila því efsta sætinu eftir þessar fimm umferðir með 4,5 vinning. Eftir þetta jafntefli bættust þó þeir MVL, Artemiev og heimsmeistarinn Gukesh í hópinn með sigrum í sínum skákum.

Zhu Jiner er ein efst í kvennaflokki með 4 vinninga af 4 mögulegum en tefldar eru 11 umferðir í kvennaflokki.

Fléttað á fyrsta keppnisdegi

Daninn Jonas Buhl Bjerre náði skemmtilegu skoti gegn Úzbekanum Nodirbek Abdusattorov. Tíundi leikur svarts 10…Dd7?? var arfaslakur.

Jonas fann 11.Be6!! og svartur getur nánast lagt niður vopn. Ef hvíta drottningin nær að drepa á f7 hrynur allt hjá svörtum. Nodirbek gaf drottningu en tapaði þrátt fyrir ágætis baráttu.

Annar ungur skákmaður sem tapaði mikilvægri skák var Vincent Keymer. Eftir að hafa hugsað í um 5 mínútur lék Vincent 17.De2??

Við látum lesendum eftir að finna auðveldan vinning á svart hér!

Herlegheitin halda áfram á morgun þegar fjórar umferðir verða tefldar í opna flokknum.

Dæmi um efni af Insta hjá Vigni

 

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Vignir Vatnar (@vignirvatnar)

- Auglýsing -