Skákþing Reykjavíkur hélt áfram í dag í Faxafeninu en þá var tefld önnur umferð. Topparnir voru heilt yfir nokkuð þéttir en þó voru fjölmörg óvænt úrslit. Þau óvæntustu voru vafalítið þegar hinn ungi Tristan Fannar Jónsson lagði næststigahæsta mann mótsins, Benedikt Briem að velli.
Dagur Ragnarsson og Lenka Ptacnikova tóku yfirsetu vegna þátttöku í Janus Open í Færeyjum en aðrir á toppnum voru klárir í slaginn.
Bárður náði skemmtilegri mátsókn gegn Caro-kann vörn Sigurðar Páls Guðnýjarsonar. Þungu menns svarts á drottningarvængnum máttu sín lítils gegn sóknarmönnum hvíts.
Magnús Pálmi náði góðum seiglusigri með svörtu gegn nýkrýndum Skákskólameistaria, Sigurbirni Hermannssyni. Hrókur hvíts lenti í sjálfheldu í horni borðsins en hvítur hefði getað haldið taflinu, var með ákveðna „fortressu“ en missti þráðinn og svarti kóngurinn varð virkur og náði að handsama hrókinn sem aldrei komst í spilið. Áhugavert endatafl.
Óvæntustu úrslitin voru eins og áður sagði þegar Tristan Fannar lagði Benedikt Briem að velli. Benedikt virtist vera að ná í fínan endataflssigur, peði yfir og að reyna að kreysta fram vinninginn þegar hann valdi vitlausan kóngsleik.
47…Kc5 ætti að vinna hér en 47…Ke6?? reyndist skelfilegur eftir 48.Rd8+. Á daginn kemur að hvorki 48…Kd7 né 48…Kd6 ganga vegna Rd8-b7-c5 og hrókurinn á b3 hjá svörtu er í jafn vondum málum og hrókur Sigurbjörns var á a1 reitnum, mögulega verri! Benedikt valdi 48…Ke7 en staðan hrynur og er töpuð eftir 49.Rxc6, Tristan tefldi endataflið svo vel og innbyrti sigurinn.
Milosz Úlfur Olszewski hélt áfram að ná í góð úrslit og gerði aftur jafntefli við titilhafa, nú CM Guðmund Halldórsson. Glimrandi byrjun hjá Milosz!
Parað verður í 3. umferð snemma á morgun en sjö skákmenn hafa enn fullt hús, 2 vinninga.
Teflt er á sunnudögum klukkan 13:00 og miðvikudögum klukkan 18:30.
Dagskrá:
- umferð miðvikudag 7. jan 18:30
- umferð sunnudag 11. jan 13:00
- umferð miðvikudag 14. jan 18:30
- umferð sunnudag 18. jan 13:00
- umferð miðvikudag 21. jan kl. 18:30
- umferð sunnudag 25. jan 13:00
- umferð miðvikudag 28. jan 18:30
- umferð sunnudag 1. feb 13:00
- umferð miðvikudag 4. feb 18:30
Sjálfkrafa tap dæmist á keppanda sem mætir á skákstað meira en 30 mínútum eftir upphaf umferðar.
Tímamörk:
90 mín á 40 leiki, síðan 15 mín, auk 30 sek eftir hvern leik alla skákina.
Skákstjórn:
Daði Ómarsson og Jon Olav Fivelstad
Aðalverðlaun
- 1. sæti kr. 110.000
- 2. sæti kr. 55.000
- 3. sæti kr. 35.000
Aukaverðlaun
Aukaverðlaun eru þannig að frá og með 11. skákmanni miðað við upphafsröð í mótinu (strarting rank) verður skákmönnum, þaðan og niður, skipt í fjórar jafnstórar stigagrúbbur. Sem dæmi: Taki 50 manns þátt í mótinu þá væri þetta svona:
Efstu 10 keppa ekki um aukaverðlan, heldur aðalverðlaun.
Keppendur númer 11.-20. í upphafsröð keppa um aukaverðlaun A.
Keppendur númer 21.-30. í upphafsröð keppa um aukaverðlaun B.
Keppendur númer 31.-40. í upphafsröð keppa um aukaverðlaun C.
Keppendur númer 41.-50. í upphafsröð keppa um aukaverðlaun D.
Sá sem endar mótið efstur í A grúbbu vinnur því aukaverðlaun A, og svo framvegis.
Aukverðlaun í öllum flokkunum fjórum eru 12.500 krónur.
Oddastig (tiebreaks):
1. Fleiri tefldar skákir 2. Buchholz (-1) 3. Buchholz 4. Innbyrðis úrslit 5. Sonneborn-Berger
Þátttökugjöld:
kr. 8.000 fyrir 18 ára og eldri.
kr. 4.000 fyrir 17 ára og yngri.
Frítt fyrir Stórmeistara
Keppt er um titilinn Skákmeistari Reykjavíkur 2026 og hlýtur sá keppandi sem verður efstur þeirra sem eiga lögheimili í Reykjavík, eða eru félagsmenn í reykvísku skákfélagi, titilinn og farandbikar til varðveislu í eitt ár. Núverandi Skákmeistari Reykjavíkur er Oliver Aron Jóhannesson.
Verði keppendur jafnir að vinningum í þremur efstu sætunum, verður verðlaunum skipt (Hort-kerfi), en oddastig (tiebreaks) látin skera úr um lokaröð. Aukaverðlaun ganga óskipt til þess sem hefur flest oddastig.
Skákþing Reykjavíkur er reiknað til alþjóðlegra skákstiga.














