FIDE meistararnir Bárður Örn Birkisson og Ingvar Þór Jóhannesson komust í gær í 8-manna úrslit Síminn Invitational í netskák eftir skemmtilegar viðureignir. Bárður lagði FIDE meistarnn Örn Leó Jóhannsson en Ingvar lagði nafna sinn Skarphéðinsson að velli.

Fyrri viðureignin var á milli Arnar og Bárðs. Lengjan bjóst við auðveldum sigri hjá Erni með stuðul 1.12 á Örn en 3.9 á Bárð. Framan af einvíginu var ekki ólíklegt að sú spá myndi standast, Örn fékk betra tafl í flestum skákunum.

Bárður byrjaði á að vinna fyrstu skákina á ótrúlegan hátt, Örn lengst af hreinu peði yfir með svart en úrvinnslan gekk illa og svo lék Örn af sér heilum riddara í tímahraki.

Örn kom sterkur til baka og vann næstu tvær skákir. Fyrst vann hann seiglusigur með hvítu, stóð af sér frumkvæði svarts og vann svo peð og endataflið.

Örn tók forystuna með sigrinum í þriðju skákinni, vel tefld pósaskák þar sem hann yfirspilaði Bárð með svörtu mönnunum.

Örn hefði átt að komast í 3-1 í fjórðu skákinni en féll á tíma, gleymdi sér, með peði yfir og líklega nóg til vinnigs. Staðan 2-2 eftir allt saman!

Bárður hamraði járnið og nýtti meðbyrinn og komst yfir í einvíginu.

Örn þurfti að vinna síðustu skákina og fékk örlítið betra endatafl, möguleika á frípeði á drottningarvæng en gleymdi sér og missti peð og missti svolítið stjórn á stöðunni og Bárður tryggði sér jafnteflið sem hann þurfti.

Skemmtileg seigla hjá Bárði sem vann 3,5-2,5 og fór áfram, óvænt skv. spámönnum allavega!

Í seinni viðureigninni mættust nafnarnir FIDE meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson og hinn efnilegi Ingvar Wu Skarphéðinsson. Ingvar Wu hóf leik með hvítu mönnunum. Ingvar Þór ætlaði greinilega að passa tímann sinn og tefldi byrjunina mjög hratt, stillti upp í broddgaltarkerfið og tefldi hratt.

Í miðtaflinu tók Ingvar Þór yfirhöndina en náði ekki alveg að nýta sér stöðuyfirburðina og í tímahraki var alls ekki ljóst hvað myndi gerast þegar Ingvar eldri missti aðeins tökin, jafnt tafl en ákveðin undiralda. Á ögurstundu gleymdi Ingvar Wu sér og tapaði manni og eftirleikurinn auðveldur þar sem svarti kóngurinn átti alltaf gott skjól

Önnur skákin í einvíginu var mjög góð framan af hjá Ingvari Wu. Hann tók frumkvæðið og var að yfirspila Ingvar sem lenti í vandræðum eftir byrjunina og með lélegan riddara. Ingvar Þór náði að halda stöðunni og ná góðu spili á svörtu reitunum og tók yfirhöndina eftir 29.Hc1!! og fékk möguleika á vinning en einfaldaði stöðuna um of og sá yngri gat haldið jafnteflinu.

Þriðja skákin var róleg og ákvað Ingvar Wu að endurtaka leiki snemma og ná aftur vopnum sínum í hléinu.

Ingvar Wu átti enn sénsa í fjórðu skákinni eftir strategíska yfirsjón hjá Ingvari eldri í miðtaflinu. Aftur endurtók sagan sig, Ingvar Þór náði sínum vopnum aftur og fékk gott endatafl þar sem svartur var í miklum erfiðleikum með að finna leiki og sá gamli nýtur sín oft vel í þannig stöðum og kom sér í 3-1 með sigri.

Í lokaskákinni náið Ingvar Þór góðum Benoni með skiptum litum og fékk betra tafl en hleypti þeim yngri inn í skákina aftur en þá lék Ingvar Wu tveimur slæmum leikjum þegar staðan var að komast í lag og varð að gefast upp.

Niðurstaðan 4-1 sigur Ingvars Þórs þar sem lokatölur gefa ekki almennilega til kynna undirölduna í skákunum og einvíginu.

Hægt er að sjá útsendinguna hér að neðan skákskýringar á kvöldinu voru í höndum Björns Ívars og Hilmis Freys.

Almennt um Síminn Invitational

Hægt er að fylgjast með á Sjónvarpi Símans eða á YouTube rás RÍSÍ eða Twitch Rási RÍSÍ

Mótið er í umsjón Rafíþróttasambands Íslands í nánu samstarfi við Skáksamband Íslands. Beinar útsendingar verða á Símanum Sport.

Í úrslitakeppninni verða tefld sex skáka einvígi – sá vinnur sem fyrr fær 3½ vinning. Verði jafnt verður teflt til þrautar. Í úrslitum verður 10 skáka einvígi – sá vinnur sem fyrr fær 5½ vinning.

Skákskýringar í vetur verða í umsjón Björns Ívars, Hilmis Freys og Ingvars Þórs.

Verðlaun í aðalkeppninni

  1. 200.000 kr
  2. 100.000 kr.
  3.   25.000 kr
  4.   25.000 kr.

Dagskrá

8. janúar 26′ Undanrásir – LOKIÐ
18. janúar. 26′ 16 manna úrslit – LOKIÐ
25. janúar 26′ 16 manna úrslit – LOKIÐ
1. febrúar 26′ 16 manna úrslit
8. febrúar 26′ 16 manna úrslit
22. febrúar 26′ 8 manna úrslit
1. mars 26′ 8 manna úrslit
15. mars 26′ Undanúrslit
22. mars 26′ Úrslit
- Auglýsing -