Lenka Ptacnikova lætur ekkert stoppa sig á opna Íslandsmóti kvenna og heldur ennþá forystu á mótinu með góðri taflmennsku. Stjarna dagsins var hinsvegar hin unga Iðunn Helgadóttir sem tefldii glæsilega skák og lagði að velli hina reyndu Oksönu Kryer (2107)
Lenka hafði svart á fyrsta borði og má segja að hún hafi gefið finnskum andstæðingi sínum kennslustund í taktík í skákinni, þá sérstaklega í leppunum!

Anastasia Nazarova virðist vera að ranka við sér og vann einnig með svörtu gegn Olgu Dolzhikovu. Sú finnska beitti biskupaparinu vel sem hafði betur gegn riddarapari Olgu.
Iðunn var eins og áður sagði stjarna dagsins en hún tefldi mjög góða skák gegn Oksönu Kryger (áður Vovk). Sú danska er reynd keppniskona og með 2107 elóstig. Tarrasch vörnin var tefld með glæsibrag og Oksana sá í raun aldrei til sólar í skákinni. Þetta hlýtur að vera ein besta ef ekki besta skák Iðunnar hingað til!
Jóhanna laut í dúk gegn Alenu Ayzenberg á fjórða borði. Modern/kóngsindverjinn getur verið brothætt byrjun og sú norska tefldi nú bara nokkuð vel að þessu sinni.
Guðrún Fanney náði glæsilegum úrslitum í sinni skák og ungu íslensku stelpurnar eru að standa sig vel. Guðrún lagði Sylviu Johnsen að velli en hún er með fína reynslu eins og margir keppendur á þessu móti. London systemið gaf eins og oft áður góða raun og sú norska lék slæmum fingurbrjót í lokin. Eitthvað sem Norðmenn eru að gera óvenju mikið af þessa dagana á Hótel Natura!
Katrín hefur klárlega sótt í sig veðrið eftir því sem liðið hefur á mótið. Liss var hinsvegar erfið í taktíkinni í dag og hafði betur.
Lenka heldur hálfum vinningi í forskot á toppnum sem fyrr

Lenka mæti Ayzenberg í lokaumferðinni, Iðunn fær svart á Nazarovu og Guðrún Fanney svart á Liss. Umferðin hefst klukkan 10:00 á morgun.
















