Bandaríski stórmeistarinn og YouTube/Twitch risinn Hikaru Nakmura varð heimsmeistari í Fischer-slembiskák og skemmtilegt að hann skildi gera það á 50 ára afmælishátíð einvígis aldarinnar. Segja má að sagan hafi endurtekið sig. Árið 1972 voru það Bandaríkin gegn Sovétríkjunum þegar kalda stríðið stóð sem hæst og árið 2022 voru það aftur Bandaríkin en nú gegn Rússlandi. Það má reyndar færa það til bókar að Ian Nepomniacthchi var með fyrstu mönnum að mótmæla skriflega stríðsbrölti Rússa sem verður að teljast honum til tekna.
Flestir áttu von á Magnus Carlsen í úrslitum en Ian Nepomniacthchi skemmdi að mörgu leiti „partýið“ í undanúrslitum með því að leggja hann að velli með mikilli seiglu. Sýndi Nepo þar takta sem hann hafði ekki sýnt framan af móti en allir vissu hinsvegar að þessir taktar byggju í honum.
Í úrslitunum hóf Hikaru Nakamura atlögu sína að sínum fyrsta heimsmeistaratitli með stæl.
19…a6!! er eini leikurinn sem gefur svörtum gott tafl, annars er hvítur með aðeins betra. Hvítur getur ekki drepið þar sem drottningin lendir í vandræðum og svartur hrifsaði frumkvæðið og lét það ekki af hendi.
Hikaru var reyndar aftur á tánum í 29. leik
29…Hxe4! og svartur stendur til vinnings útaf lykilskákum á g5.

Nakamura tók þar með góða forystu með því að vinna með svörtu. Hann stýrði hvítu mönnunum í næstu tveimur skákum og því gríðarlega mikilvægur sigur hér á ferð.
Önnur einvígisskák þeirra félaga var satt best að segja sjúklega spennandi. Undirritaður lýsti gang mála í beinni útsendingu á RÚV ásamt Birni Þorfinnssyni og vorum við hreinlega að farast úr spennu á köflum. Nepo gerði allt sem hann gat til að þyrla moðreyk í átt að Hikaru sem varðist með kjafti og klóm. Á mörgum stöðum virtist sem staða Hikaru væri að hrynja en hann fann alltaf varnir. Á endanum hefði Hikaru í raun getað teflt lokastöðuna áfram með því að leika Kf3 í stað þess að taka þráskák en ljóst var að bandaríkjamaðurinn hafði fulla trú á því að hann væri ekki að fara að tapa sinni fyrstu skák á þessu móti í skákunum sem eftir voru og samdi því jafntefli útaf þráskák. Taktísku möguleikarnir í þessari skák voru hreint óþrjótandi!
Þriðja skákin varð einnig æsispennandi.
Nepomniachtchi blés til sóknar með skiptamunsfórn 20…Hxe3!!? í framhaldinu var baráttan æsispennandi, mistök voru á báða bóga en Nepo aldrei í neinni taphættu og frumkvæðið hans. Á endanum varð frumkvæðið og tímahrakið til þess að Nakamura varð að lúta í dúk.
Nepo hafði nú hvítt í fjórðu skákinni og með betri möguleika. Hann virðist hinsvegar lenda í miklum vandræðum í byrjuninni þar sem hann tapaði tíma og virtist eiga við vandamál að stríða. Nakamura var eitthvað svekktur þegar Nepo náði að laga vandamálin og bauð jafntefli í aðeins betri stöðu sem Nepo þáði.
Framundan var Armageddon skák þar sem heimsmeistaratitillinn var í boði! Keppendur þurftu að bjóða í tíma sem þeir væri tilbúnir að hafa með svörtu gegn 15 mínútum hvíts. Nakamura bauð 14 mínútur en Nepo bauð 13 mínútur. Lægra boðið vann þannig að Nepo hafði svart og nægði jafntefli til að vinna skákina og heimsmeistaratitilinn.
Snemma virtist skákin stefna í að verða of róleg. Nepo náði góðum uppskiptum og Nakamura virtist vera að stefna í þrot með að ná að eiga nóg af mönnum inná borðinu til að búa eitthvað til. Einhvern veginn tókst Nakamura að búa til spil og Nepo missti þráðinn og tapaði skiptamun. Eftir það hafði Naka einnig gott tímaforskot og sigurinn var hans, bandarískur mesitari á Íslandi aftur, 50 árum síðar!

50 years on, echoes of Fischer v Spassky as an American defeats a Russian to win a World Champion title in Reykjavik.
Congratulations to @GMHikaru in his incredible Chess960 journey, starting in the Lichess CCC & NACCL Fischer Random Qualifiers and ending 2022 World Champion pic.twitter.com/mm6GsHM6OG
— Lichess.org (@lichess) October 30, 2022
Hikaru Nakamura (@GMHikaru) is the new FIDE World #FischerRandom Chess Champion!
Congratulations! 👏 👏📷: @davidllada pic.twitter.com/aTnRtUTEPl
— Fischer Random Chess (@fischer_random) October 30, 2022
Skýringar Nakamura á YouTube:
Sögulegur sigur hjá Hikaru og gaman að Bandaríkjamaður nái í jafn stóran titil á þessari afmælishátíð. Í raun má segja að sigur Wesley So á Magnus Carlsen árið 2019 sé eini heimsmeistaratitill sem Bandaríkjamaður hefur náð síðan að Bobby náði í titilinn fræga árið 1972!
Eins og áður sagði áttu flestir von á Magnus Carlsen í úrslitum en hann tapaði í undanúrslitum og endaði á því að þurfa að eiga við Nodirbek Abdusattorov í baráttunni um 3. sætið. Flestir hefðu spáð þeim tveimur í úrslitum eins og mótið þróaðist en kannski kláraði Úzbekinn ungin heppnina of snemma eins og Nakamura nefndi í viðtali við RÚV í samantektarþætti
HM í Fischer-slembiskák: Samantekt – Þáttur 5 af 5 | RÚV Sjónvarp (ruv.is)
Einvígi Carlsen og Abdusattorov byrjaði reyndar á því að Úzbekinn ungi tók Carlsen í taktíska kennslu í riddarafræðum.
Carlsen missti líklega af því að riddari Abdusattorovs getur hörfað til c3 og svartur er í vandræðum. 46.Rc3!

Skemmst er frá því að segja að þessi ósigur vakti skrímslið. Magnus vann næstu þrjár skákir sem fylgja hér á eftir:
Fá augu voru á einvígi þeirra Vladimir Fedoseev og Wesley So sökum þess hversu mikið var undir í hinum einvígjunum. Skemmst er frá því að segja að Fedoseev hafði 3-1 sigur og Wesley virtist eiginlega heillum horfinn á þessu móti.

Hjörvar Steinn Grétarsson, okkar maður lenti í hörkueinvígi við Evrópumeistarann Matthias Bluebaum. Hjörvar tapaði fyrstu skákinni eftir misheppnaða byrjun sem litaði einvígið nokkuð mikið. Hjörvar var í bullandi séns með svörtu í þriðju skákinni en missti þar af gullnu tækifæri á að jafna einvígið. Bluebaum tók loks fjórðu skákina þegar Hjörvar þurfti að sprengja sig þar sem jafntefli gaf ekkert í aðra hönd.

Helit yfir virkilega vel heppnað mót sem fram fór á frábærum keppnisstað á Hotel Natura. Margir hafa góðar minningar frá þessum keppnisstað þegar hann þekktist undir nafninu Hótel Loftleiðir. Vonandi náum við að skapa áfram góðar skákminningar á þessum frábæra keppnisstað.
En góðu og vel heppnuðu móti er lokið. Vel heppnaðar útsendingar á RÚV og gott mótahald og vonandi að skákin nái að fylgja eftir þessum góða meðbyr sem þetta mót er að gefa!















