Þremur umferðum er lokið á Meistaramóti Skákskóla Íslands 2022 – Unglingameistaramót Íslands 2022 – U22. Tvær kappskákir voru tefldar í gær, föstudag og línur aðeins farnar að skýrast. Tveir stigahæstu menn mótsins, Alexsandr Domalchuk-Jonasson og Hilmir Freyr Heimisson hafa báðir 3 vinninga af 3 mögulegum og mætast í 4. umferðinni.
Förum aðeins yfir gang mála í umferðunum tveimur…
Fyrsta „sleggjuviðureignirnar“ á mótinu voru klárlega viðureignir þeirra Briem-bræðra við stigahæstu keppendur mótsins. Í skák Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Benedikts Briem tefldi sá síðarnefndi „Gamla Indverjann“ og gafst hann ekki vel. Byrjunin hentar líklega stíl Aleksandrs vel. Í miðtaflinu kom Aleksandr auga á skemmtileg riddaratilfærslu sem tryggði honum yfirráð yfir c6-reitnum og þar fékk hann frípeð sem varð eiginlega úrslitavaldur í skákinni.


Hilmir tefldi dýnamískt með svörtu eins og hans er von og vísa. Stephan gaf eftir biskupaparið með hvítu en eyðilagði í staðinn peðastöðu Hilmis. Stephan var líklega með betra samkvæmt tölvunum en í mannlegri skák er málið ekki svo einfalt. Hilmir náði að setja öll sín egg í sömu körfuna og sú karfa treysti á það að frípeð svarts á drottningarvæng nægði til vinnings…sem það gerði!

Lengsta og mest spennandi skák umferðarinnar var á milli Gunnars Eriks og Alexanders Olivers. Lengi var staðan lokuð og miklar tilfærslur á báða bóga. Í lokin var Alexander við það að sprengja sig í jafnteflisstöðu en það var að sleppa fyrir horn þegar hann lék af sér í stöðu þar sem enn var hægt að berjast. Seiglusigur hjá Gunnari í þungri skák.
Aðrar skákir 2. umferðar

Í þriðju umferðinnivar það Birkir Ísak sem laut í dúk gegn Aleksandr Domalchuk-Jonasson sem stýrði svörtu. Birkir fékk ívið betra tafl úr byrjuninni en Sasha var þéttur fyrir og náði að sigla endataflinu heim.
Hilmir Freyr tefldi flotta skák gegn Sveshnikov afbrigði Gunnars Erik. Hilmir fékk „Skákskólariddara“ á d5-reitnum og vann nánast út á styrkleika hans. Taktíkin í miðtaflinu var samt skemmtileg hjá Hilmi
Arnar Milutin og Dawid Kolka tefldu virkilega skemmtilega skák. Dawid fórnaði manni og svo öðrum með frumlegri taflmennsku og miðtaflið líklega bara mjög vel teflt hjá svörtum sem fékk unnið tafl. Arnar náði þó að halda hálfum vinningi og líklegast sáttur með þá niðurstöðu.
Iðunn Helgadóttir hefur teflt vel á mótinu. Hún stóð til vinnings gegn Aleksandr Domalchuk-Jonasson og fékk aftur dauðafæri gegn Stephan Briem.
Hér hefði Iðunn getað leikið 35.Dxe4!! þar sem 35…Dxd2 er svarað með 36.Df5+ og ef 36…Dg5 þá kemur sleggjan…
37.Hxh4! og mát með Dh3 í næsta leik!
Þess í stað varð jafntefli niðurstaðan eftir 35.Dxg5. Góð úrslit engu að síður hjá Iðunni.
Aðrar skákir 3. umferðar
Staðan eftir umferðirnar þrjár:

Pörun 4. umferðar lítur svona út.
Mikill fjöldi situr hjá í 4. umferðinni vegna jólapakkamótsins.
Dagskráin framundan:
4 umferð kl.: 11, laugardaginn, 17. desember
5 umferð kl.: 17, laugardaginn, 17. desember
6. umferð kl.: 10.30, sunnudaginn, 18. desember
- Skákir í beinni á lichess
- Webcam á þessari rás á Youtube og einnig á Twitch
- Skákir í beinni á LiveChess cloudi
- Mótið á Chess-Results

















