Meistaramót Skákskóla Íslands – Ungmennameistaramot Íslands Íslands (u22) fór skemmtilega af stað í gær með baráttuskákum og óvæntum úrslitum. Landsliðsmaðurinn Hilmir Freyr Heimisson ætti að vera sigurstranglegastur í flokknum og líklegur í að verja sinn titil og komast þá í næsta landsliðsflokk. Hann gerði sitt í fyrstu umferð en fyrsta umferðin var engin dans á rósum fyrir þá stigahærri!

Mikael Bjarki fékk erfitt verkefni í fyrstu umferð, svart á landsliðsmanninn Hilmi Frey. Mikael bauð drottningarkaup snemma tafls og Hilmir tók því. Hilmir endaði á að byggja upp mikla pressu á drottningarvæng og á endanum gaf stíflan sig þar hjá svörtum. Mikael komst þó vel frá byrjuninni og hefði líklegast verið með síst lakara tafl í 15. leik með því að leika t.d. 15…a5 eða 15…Rb4.
Josef tapaði á öðru borði með hvítu gegn Stephan Briem. Eins og hjá Mikael Bjarka, komst Josef nokkuð vel út úr byrjuninni en hleypti svörtum í of mikið spil á drottningarvængnum.

Fyrstu óvæntu úrslitin komu á þriðja borði í skák Gunnars Eriks og Sigurðar Páls. Gunnar hafði hvítt og fékk fína sóknarstöðu. Mögulega hefði mátt splæsa í eina gríska gjöf hér:
15.Bxh7!? er athyglisverður og hvítur virðist koma vel úr sókninni þó skákin sé engan vegin búin eftir t.d. 15…Kxh7 16.Dh5+ Kg8 17.Hf3 f5 18.Hh3 o.s.frv.
Gunnar missti í raun þráðinn í sókninni og lagði of mikið á stöðuna. Enn var drottningarvængurinn örlagavaldur og Sigurður Páll braust þar í gegn með hættulegt frípeð sitt.
Ingvar Wu vann með svörtu gegn Birki Hallmundarsyni. Birkir gaf svörtu reitina eftir og greiddi það dýru verði þrátt fyrir að hafa tímabundið unnið peð.

Iðunn hafði svart gegn Benedikt og hafði lengst af nokkuð vænlegt tafl.
Hér tók Iðunn peð á g2, 38…Hxg2 sem fer nokkuð þvingað í endatafl þar sem svartur er peði yfir en staðan að öllum líkindum jafntefli. Framhaldið varð 39.Hd8 Hg1+ 40.Bd1 Df5+ með uppskiptum. Mjög vænlegt á svart hefði verið 38…Be6!? með hótun á c2, t.d. 39.Hc1 Dd6 40.Df3 De5. Tölvan telur taflið mjög vænlegt á svart sem hefur mun virkari menn og betri kóngsstöðu sem tölvurnar meta yfirleitt mikils. Hvítur á jafnframt erfitt að virkja sína menn og t.d. biskupinn leppur vegna hótunar á b2.
Benedikt hélt endataflinu sem kom upp og jafntefli niðurstaðan.
Skák Guðrúnar Fanney og Adams var enn ein skákin þar sem drottningarvængurinn var örlagavaldurinn. Adam komst í gegn á svörtu reitunum á drottningarvæng og hafði betur.

Óvænt úrslit urðu svo á sjöunda borði. Þar tefldi Sigurbjörn með svörtu hreinlega eins og herforingi og átti sigurinn fyllilega skilinn gegn Þorsteini Jakob.
Ein umferð er í dag, föstudag og svo verður hörkuprógram um helgina með tveimur skákum á dag!
- Skákir á lichess (með delay)
- Twitch streymi frá efsta borði
- Mótatilkynning og upplýsingar (verðlaun, dagskrá o.fl.)
- Mótið á Chess-Results
















