Önnur umferð NM stúlkna í skák hófst kl. 9:00 í morgun. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrum forseti Skáksambands Íslands, lék fyrsta leikinn í skák Margarita Zaritovskaja og Livia Lindstad á 1. umferð í A-flokki. Lilja er upphafsmaður Norðurlandamóts stúlkna sem fór fyrst fram árið 2007. Íslensk kvennaskák á Lilju mikið að þakka enda hefur drifkraftur hennar í skáklífinu skilað mörgum af þeim sterku skákkonum sem þjóðin á í dag.

A-flokkur


Iðunn tefldi góða skák gegn Soboleva og vann sannfærandi sigur eftir að sú finnska lék af sér manni í byrjuninni.
B-flokkur

Guðrún Fanney tefldi hörkuskák gegn Anna Sofie Li. Guðrún fékk yfirburðartafl eftir byrjunina en fataðist flugið í tímahraki í miðtaflinu, missti tökin á stöðunni og tapaði.
Katrín María vann góðan sigur á Josefina Hellstrand. Nokkuð jafnræði var með keppendum fram í endatafl en þá náði riddari Katrínar Maríu að veiða peð af svörtum og Katrín sigldi sigrinum í höfn.

Margrét Kristín og Hrafndís Karen tefldu innbyrðis. Mjög sveiflukennd skák þar sem báðir keppendur misstu af bestu leiðunum en Margrét Kristín vann að lokum.

Sóley Kría vann góðan sigur á Hannele Junell. Sóley tefldi vandaða skák, tók smátt og smátt yfir og vann með vel útfærðri kóngssókn.
C-flokkur

Emilía Embla tefldi hörkuskák gegn Githiha. Emilía Embla fékk vinningsstöðu en fataðist flugið og hleypti þeirri norsku aftur inn í skákina. Eftir harða baráttu lagði Emilía Embla niður vopnin.
Halldóru voru mislagðar hendur í byrjuninni og Zhong hin sænska vann lið. Lærdómsrík skák fyrir Halldóru sem þarf að finna betri vopn gegn Sikileyjarvörninni.
Silja Rún lagði Elsu Margréti að velli í innbyrðis skák þeirra.
Tara Líf bjargaði jafntefli gegn Elli-Sofie eftir að hafa lent í vandræðum í byrjuninni. Tara Líf nýtti tímann sinn og færin vel og komst inn í skákina með hættulegum hótunum. Góð redding.
Sigrún Tara lagði Emilíu S. í innbyrðis viðureign þeirra. Þær tefldu báðar of hratt og geta lagað það í næstu skák.
Í kvöld fara keppendur á mótinu í mat og óvæntan viðburð sem allir bíða spenntir eftir.
3. umferð hefst kl. 15:00. Beinar útsendingar eru frá öllum skákum mótsins.
Heimasíða mótsins
Chess-results
Beinar útsendingar

















