Helgi Ólafsson varð hlutskarpastur eftir harða og skemmtilega keppni á Wessman One Bikarnaum sem fram fór á Cernin Vínbar í gær. Chess After Dark skipulögðu mótið og nutu þar stuðnings Mason Wessman og Cernin Vínbars. Glæsileg skákveisla í boði á fallegum og sólríkum laugardags eftirmiðdegi. Öllu var tjaldað til fyrir útsendingu frá mótinu sem var með glæsilegra móti!

Ellefu skákmenn voru mættir til leiks þar sem allir tefldu við alla með tímamörkunum 4+2. Einn skákmaður sat hjá í hverri umferð. Fjórir stórmeistarar voru skráðir til leiks, þeirra stigahæstur var Hjörvar Steinn Grétarsson en á eftir honum komu „gömlu mennirnir“ Helgi Ólafsson og Jóhann Hjartarson. Auk þeirra var Bragi Þorfinnsson mættur til leiks. Flestir keppendur mótsins voru auk þess titilhafar.

Fulltrúar gömlu kynslóðarinnar fóru vel af stað. Helgi lagði Braga að velli í fyrstu umferð.

20.Hxc6!? skemmtileg skiptamunsfórn sem virðist gefa hvítum yfirburðastöðu. Helgi vann skiptamuninn fljótt til baka eftir 20…bxc6 21.Re5 De8 22.Rxc6 Hd7 23.Re5 He7 24.Bh5 og Rg6 kemur í kjölfarið með gaffli. Tæknin vafðist svo ekki fyrir Helga peði yfir.

Helgi og Jóhann fóru í raun báðir vel af stað, gerðu báðir snemma jafntefli en tóku svo til við að vinna skákir og leiddu mótið framan af.

Hjörvar missti niður punkt gegn Degi Ragnarssyni í 2. umferð

Riddarafráskákin vofir yfir og svartur hefur í bakhöndinni leiðindi á e-línunni. Hjörvar hefði líklegast sloppið með jafntefli með 29.Hdf1! og þráleikur eftir 29…Rf4+ 30.Ke1 Rd3+ o.s.frv. Þess í stað kom 29.Hf7? Hxf7 30.Kxd3 en eftir 30…Hd7+ nær hvítur ekki að halda valdi á riddurunum á e-línunni og Dagur vann góðan sigur.

Jóhann vann svo innbyrðis skák sína við Hjörvar í 4. umferðinni og styrki stöðu sína og eldri kynslóðarinnar á toppnum.

Jóhann missti reyndar af skemmtilegum leik 31…Rg4+! og biskupinn á e3 fellur þar sem riddarinn er friðhelgur útaf mátinu á h4. Málið er reyndar ekki alveg svo einfalt því að svartu þarf að sjá að hann eigi …c4 leikinn til að valda riddarann síðar meir. Jóhann byggði engu að síður upp vinningssókn á kóngsvæng nokkrum leikjum síðar og braust í gegn.

Hjörvar var þarna kominn í smá vandræði og sætið í undanúrslitum komið í smá hættu. Hjörvar fór þó að finna sig og lagði Helga Ólafsson að velli í 5. umferð

Helgi hafði verið með Hjörvar „í köðlunum“ lengst af skákar en hér tók Helgi eitrað peð: 31.Dxg3? og skyndilega eftir 31…Rf6 var hvítur kominn í nauðvörn. Riddaraskák á e4 vofir yfir 32.Rg5 Db1 33.Hc2 cxd4 og hvíta staðan er skyndilega gjörsamlega hrunin. Mikilvægur sigur fyrir Hjörvar en fyrsta tap Helga sem þó hélt öðru sæti á eftir Jóhanni.

Í sjöundu umferð urðu vatnaskil hjá Magnúsi Erni Úlfarssyni. Magnús hafði byrjað rólega en í sjöundu umferð hóf hann magnaðan endasprett þar sem hann náði sér í 4,5 vinning af 5 í síðustu skákunum.

Helgi lék af sér með 20.Rd4? nú hefði 20…Hxc3 verið bestur en leikur Magnúsar 20…Re4 var einnig sterkur og Helgi nú þegar í vandræðum gaf eftir 21.De3? Rxd6

Helgi gaf þarna aðeins eftir en lokastaðan á undanmótinu varð eftirfarandi

Jóhann í banastuði, Hjörvar náði að rétta úr kútnum og svo kom spútnikmaður mótsins, Magnús Örn og náði inn í undanúrslitin ásamt Helga Ólafssyni. Helgi virtist aðeins missa móðinn undir lok undanmótsins en óskaði eftir samloku og jógúrt í hléinu áður en undanúrslit hófust og virtist tvíeflast allur við þessa töfrasamloku!

Jóhann mætti Helga í undanúrslitum og Hjörvar mætti Magnúsi. Jóhann og Hjörvar höfðu tvo hvíta í þriggja skáka einvígi eins og hefð er orðin í CAD-mótum. Hjörvar Hafliðason mætti á Cernin Vínbar við upphaf úrslitana og lék fyrsta leiknum í einvígjunum ásamt því að líta aðeins við í „settið“ í útsendingunni!

Helgi byrjaði á að leggja Jóhann að velli með svörtu mönnunum en hann hafði einnig komist ansi nálægt því í undanmótinu. Helgi náði töluvert betri stöðu þar sem hann náði hagstæðum uppskiptum á svartreitabiskup hvíts og stóð betur. Jóhann var þó við að redda taflinu.

Hér ætti hvítur líklegast að bíða átekta. 36.Rxc5 dxc5 hlýtur að vera jafnteflislegt sem dæmi en þess í stað „redúseraði Jóhann primitíft“ og drap á d6 36.exd6 Bxd6 37.Bf3 Ba6 38.Rxd6 Kxd6 og kóngur Helga varð fljótlega óstöðvandi í endataflinu.

Í fyrstu skákinni í hinu einvíginu náði Magnús að snúa á Hjörvar í endataflinu og virtist vera að landa óvæntum sigri í fyrstu skákinni með svörtu.

86…Da6? reyndist skaðræðisleikur. 87.Hc7+! og skyndilega er staðan fræðilegt jafntefli! 87…Kxb6 88.Hc6! Kxc6 og patt!

Helgi var svo kannski full varkár í skák númer tvö en ákvað að taka enga sénsa.

Hvítur stendur hér klárlega betur og ætti að geta leikið rólega 44.He2 eitthvað slíkt og tekið svo á d6. Þess í stað þrálék Helgi með 44.Df5+ Kg8 45.De6+ o.s.frv. Helgi treysti sér í að tapa ekki lokaskákinni með 1,5-0,5 forskot.

Magnús Örn þrálék líka með hvítu í sinni skák gegn Hjörvar eftir að hafa haft eitthvað betra tafl í spænska leiknum. Staðan hjá þeim 1-1 og úrslitaskák framundan.

Helgi lenti aldrei í vandræðum þar sem Jóhann missti þráðinn snemma í byrjuninni.

Eftir gerðan leik 11…dxc4 kemur á daginn að hvítur getur ekki drepið til baka með 12.bxc4 vegna 12…Da5+ Jóhann gaf því peð en hefði mögulega getað tekið á e4, leikið f3 og haldið jöfnu liði þó sú staða sé ekkert glæsileg. Eftir að Jóhann tapaði peðinu gaf Helgi enga sénsa og fór í úrslit nokkuð örugglega eftir 2,5-0,5 sigur í einvíginu.

Magnús komst svo mjög óvænt í úrslitaeinvígið með þvi að leggja Hjörvar að velli með svörtu. Magnús beitti broddgaltarafbrigðinu eins og svo oft á mótinu og beið spakur átekta og tók svo sín færi og náði að véla mann af Hjörvari.

Sannarlega óvænt hjá Magnúsi Erni en á sama tíma einfaldlega sanngjarnt, hann tefldi mjög vel.

Jóhann hafði Hjörvar Stein svo undir í baráttunni um 3. sætið.

31.a5! bxa5 32.c5! Dxc5 33.Dxa6 skildi svartan eftir með óverjandi hvíta reiti!

Kóngsindverjinn gaf svo vel í seinni skákinni hjá Jóhanni.

Úrslitaeinvígið byrjaði með hressilegri taflmennsku Magnúsar.

16.e5! var kröftugur leikur sem hélt smá frumkvæði á hvítt. Svarta drottningin oft óvölduð ef svartur skildi drepa með d-peði. 16….fxe5 17.Rxe5 De6 18.Rf3 gaf hvítum færi eftir 18…Hf7? Magnús lék réttilega 19.He1 Dd7 og fékk dauðafæri…

20.Hxe7! og hvítur stendur nánast til vinnings. Helgi fórnaði drottningunni en þá varð Magnús kærulaus. Eftir 22…Bf8

Hér tók Magnús upp riddara sinn og ætlaði að leika honum á g5 reitinn. Magnús fattaði þá í miðjum klíðum að He1+ vinnur drottninguna til baka. Sem betur fer átti Magnús 23.Re5 og hélt betra tafli en datt greinilega aðeins úr jafnvægi. Eftir 23…Hce8 24.f4 Hxe5 hefði hvítur átt að taka á e5 með drottningu og hefur ágætis endatafl. Þess í stað fékk svartur betra tafl og Helgi vann skákina að lokum!

Í lokaskákinni og sigurskák Helga setti hann upp sýningu. Takið eftir ferðalagi hvíta kóngsins á hvítu reitunum, djúpt í herbúðir svarts!

Týpísk skák fyrir „control“ stílinn sem Helgi hefur. Helgi vel að sigrinum kominn og margir spyrja sig hvað hafi eiginlega verið í samlokunni sem hann gæddi sér á eftir undanmótið!

Sigurvegarar hlutu glæsileg verðlaun, peningaverðlaun auk inneignarbréfa sem hægt er að nota í gæðavín frá Mason Wessman.

CAD-bræður enn og aftur með glæsilega mótastarfssemi og alveg ljóst að tæknin bakvið útsendinguna að þessu sinni bar af og búið að reisa ránna ansi hátt! Þeir Birkir og Leifur eiga enn og aftur miklar þakkir skildar fyrir að styrkja og styðja íslenskt skáklíf svo myndarlega og eins eiga styrktaraðilar þakklæti skilið. Ef menn vilja kíkja í smá kósý þá er Cernin Vínbar klárlega málið!

Útsending frá mótinu: 

 

- Auglýsing -