Vignir Vatnar Stefánsson varð að lúta í dúk í áttundu umferð á Budapest Spring Festival þegar hann mætti margreyndum og sterkum ungverskum landsliðsmanni, Ferenc Berkes (2618). Vignir hefur 5 vinninga eftir umferðirnar átta.
Vignir stýrði svörtu mönnunum og var nokkuð greinilega búinn að jafna taflið í byrjuninni en var ekki sáttur eftirá með 15. leik sinn 15…Ra5?! sem einn og sér er ekkert slæmur en var kannski upphafið að vandræðum svarts sem urðu smátt og smátt stærri og erfiðari.
Berkes þétti tökin, skipti skynsamlega upp á mönnum og Vignir gafst upp eftir 33.Bb7 hjá hvítum sem hótar að taka á a6 og skila biskupnum svo einfaldlega aftur á b7 reitinn þar sem a-peð er einmitt versti óvinur riddara á sama reit!
Vignir var bara nokkuð spakur í stuttu spjalli við Skak.is og heldur ótrauður áfram. Vignir ætlar sér stóra hluti og skákir við skákmenn eins og Berkes og Kadric eru mikilvægur hluti af þeirri vegferð sem Vignir er á. Í lokaumferðinni mætir Vignir serbneska alþjóðlega meistaranum Stefan Tadic (2398) en skákin verður ekki í beinni þar sem hún er á 23. borði.
Sigurbjörn Hermannsson (1861) teflir í b-flokki og gerði jafntefli við Dóru Hangyal (1690) í 8. umferðinni. Að launum virðist Sigurbjörn mæta uppfærðum skákmanni úr sömu fjölskyldu en hann fær Önnu Hangyal (1857) í lokaumferðinni!
















