Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson gerði jafntefli í sjöttu umferð í Masters grúppu London Chess Classic. Vignir tefldi skákina vel og hefði átt að vinna en fann ekki leið í gegn í endataflinu í lokin og samdi um jafntefli þrátt fyrir að eiga vinningsstöðu. Vignir er enn efstur og mætir stigahæsta keppandanum með hvítu í sjöundu umferð.
Þrír Íslendingar tefla á London Chess Classic sem fram fer á Emirates vellinum, heimavelli Arsenal. Íslendingarnir þrír taka þátt í Masters sem er opið mót þar sem 85 skákmenn taka þátt og er Raunak Sadwhani stigahæstur keppenda. Vignir Vatnar er númer 6 í stigaröðinni, Björn Þorfinnsson númer 26 og Björn Hólm Birkisson númer 54.
Fyrir umferðina var Vignir einn efstur á mótinu með 4,5 vinning af 5 mögulegum.

Vignir mætti enska alþjóðlega meistaranum Marcus Harvey og hafði svart. Vignir tók á sig stakt peð í byrjun og tefldi aktíft. Frumkvæðið var Vignis megin og hann tók yfirhöndina í skákinni, fékk betra tafl og stýrði því í gott endatafl.
Segja má að Vignir hafi gert allt rétt í skákinni nema að klára í lokin þar sem hann fékk endtafl með H+3 peð gegn R+3 peð. Jafntefli þar sem Vigni var grætilega nálægt góðum sigri með svörtu.
Enginn tími er til að gráta Björn bónda og nú verður að safna liði í erfiða skák gegn Indverjanum Raunak Sadwhani (2677) í sjöundu umferð. Vignir hefur hvítt.

Björn Þorfinnsson mætti Englending sem hafði ekki teflt kappskák í 25 ár, aðeins teflt á netinu. Björn var því eilítið stressaður þegar sé enski bombaði kóngsbragði á borðið. Úr varð skemmtilegt skák en þó týpa af stöðu og flækjum sem eiga að henta hinum hugmyndaríki Birni mjög vel. Fór enda svo að Björn var betri á svellinu og vann sigur.

Björn Hólm Birkisson gerði enn eitt jafnteflið. Stigalægri andstæðingur hans, Joel Bird, tefldi ekki upp á mikið og tók litlar áhættur. Björn fékk örlítið betra tafl en ekkert til að vinna úr.
Taflmennskan heldur áfram í sjöundu umferð fimmtudag 5. desember þar sem Arsenal og Man Utd mætast á miðvikudaginn og mótið er teflt á Emirates vellinum!


















