SixDays Budapest mótinu er nú lokið en meðal þátttakenda voru alþjóðlegu meistararnir Dagur Ragnarsson og Hilmir Freyr Heimisson. Báðir áttu þeir mót vel undir getu en Dagur náði þó að klára með sigri sem er vonandi gott veganesti í næstu orustur.
Báðir tefldu þeir í GM flokki. Dagur í GM-A flokknum og Hilmir í GM-C flokknum.
GM-A
Í gær var síðasti tvöfaldi dagurinn. Dagur varð sekur um alvarlegan fingurbrjót, 23…Be6?? í fínni stöðu. Svona týpa af afleik sem kemur upp úr engu þegar mótin eru ekki að detta með mönnum. Hvítur stóð meira og minna til vinnings eftir þetta.
Í seinni skák gærdagsins gerði Dagur stutt „Botvinnik-jafntefli“ gegn GM Gabor Nagy.
Í skákinni í dag var svo sannarlega teflt á tæpasta vaði með svörtu mönnunum! Allt var í háalofti, hvítur með „betra í blöðunum“ en Dagur kom á undan út úr brunarústunum með góðan sigur fyrir sjálfstraustið!
Lokaniðurstaðan 3 vinningar af 9 og 11 elóstig sem tapast á þessu móti. Segja má að gott „damage control“ hafi náðst í lokaumferðunum tveimur og Dagur kemur vafalítið sterkari til leiks á næsta mót!
GM-C
Í fyrri skákinni í gær gerði Hilmir jafntefli með svörtu þar sem hann stóð lengst af mun betur stöðulega og vann svo peð. Skák sem Hilmir hefði átt að vinna en frumkvæðið fjaraði í endataflinu og jafntefli niðurstaðan, svekkjandi úrslit.
Stutt jafntefli kom í seinni umferðinni í gær, svipað og hjá Degi.
Í lokaumferðinni í dag tapaði Hilmir illa gegn bráðefnilegum Rússa. Hilmir lagði gríðarlega mikið á svörtu stöðuna í ítalska leiknum og endaði það á að koma í bakið á honum og hvítur fékk blússandi kóngssókn sem kostaði lið.
Lokaniðurstaðan hjá Hilmi líka 3 vinningar af 9 og tapar hann tæplega 9 elóstigum á þessu móti.
Þeir félagar gera sig nú klára fyrir næstu mót þar sem uppskeran verður vafalítið betri!














