Þeir félagar og landsliðsmennirnir Vignir Vatnar Stefánsson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson hafa undanfarna daga verið í Asíureisu og ferðast milli landa þar. Þeir eru nú staddir í Kína þar sem þeir taka þátt í Boyi Cup – China Youth Chess International Open Tournament 2025.
Vignir er stigahæstur á mótinu og Aleksandr er númer fjögur í stigaröðinni. Hér er mögulega hættulegt mót á ferðinni þar sem þeir gætu mætt mörgum ungum og efnilegum Kínverjum. Mótið er auk þess strembið og tefldar eru tvær skákir á dag nema lokadaginn.
Fyrstu tvær umferðirnar fóru fram í gær:
1.umferð
Vignir hafði hvítt í Catalan-byrjun og fékk snemma góða stöðu. Vignir sigldi vinningnum heim þrátt fyrir miðtaflsflækjur en staðan alltaf góð hjá Vigni.
Andstæðingur Aleksandrs varðist lengi virkilega vel í erfiðu endatafli með hvítt. Sasha fann hinsvegar skemmtilega riddara-manúveringu í endataflinu og endaði á að véla Kínverjann niður.
2.umferð
Vignir varð að sætta sig við jafntefli með svörtu. Vignir fékk aðeins betra tafl í sikileyjarvörninni en ekki nóg til að pressa til vinnings, varnir hvíts héldu.
Á meðan vann Aleksandr góðan tæknilegan sigur. Virkari menn hans pressuðu stöðulega á svartan sem missti loks peð og Aleksandr náði sigrinum.
Vegna tímamismunar er svo tveimur umferðum lokið „í dag“ nú þegar!
3. umferð
Hér lenti Aleksandr í klaufalegu tapi sem engin innistæða var fyrir. Sasha hefði átt að sætta sig á jafntefli en fékk það í andlitið að hafa teygt sig of langt og tapaði.
Vignir fékk í sömu umferð mjög þægilegt hróksendatafl gegn Hou Yifan. Þó ekki sjálfri Hou Yifan heldur Hou Yifan b eins og kínverskir nafnar eru oft aðgreindir hjá FIDE, sbr. Li Chao og Li Chao b … í því tilfelli er „b-maðurinn“ reyndar betri!
4.umferð
Vignir kom fram hefndum fyrir Aleksandr og lagði andstæðing hans úr 3. umferð að velli með endataflskreystingi.
Aleksandr tapaði aftur, nú gegn 14 ára Kínverja. Miðtaflið varð snemma erfitt hjá Aleksandr en þrátt fyrir það missti hann af björgunarleið í endataflinu, ólíkt honum.
Vignir hefur 3,5 vinning og er einn efstur en Aleksandr hefur 2 af 4 eftir erfiðan dag.
Taflið heldur áfram með tvöfaldri umferð 2. ágúst að kínverskum tíma og hefja þeir taflmennsku aftur í nótt.














