Skáksumarið heldur áfram hjá alþjóðlegu meisturunum Degi Ragnarssyni og Hilmi Frey Heimissyni. Síðasta mót hjá þeim í Búdapest gekk ekki nógu vel og menn því í hefndarhug.
Mótið byrjaði reyndar ekki nógu vel þar sem flugi var seinkað og þurftu þeir því báðir að taka hálfs vinnings yfirsetu í fyrstu umferð.
2. umferð
Hér fékk Dagur svart gegn heimamanni. Skákin var lengst af í jafnvægi en í endataflinu lék hvítur skákinni niður. 52.Kg5?? var slæmur afleikur þar sem svartur fær tíma til að koma hrók sínum bakvið frípeðið með skemmtilegri tilfærslu, lærdómsríkt fyrir skákmenn af öllum stigum!
Skák Hilmis gekk ekki vel og varð hann að lúta í dúk með svörtu.
3. umferð
Dagur fékk þægilega betra tafl með hvítu með góðu rými gegn kóngsindverskri peðastöðu svarts þar sem svartur hefur eytt óþarfa tíma í að hafa biskupinn á b7. Degi tókst ekki að nýta stöðuyfirburðina en náði að kreysta fram vinning í endataflinu þegar hann kom kóng sínum inn í herbúðir andstæðingsins.
Hilmir náði í sinn fyrsta vinning. Andstæðingur hans fór í misheppnaðar taktískar aðgerðir en staðan var þá þegar erfið og Hilmir með mun betra tafl skipamun yfir.
4. umferð
Dagur fékk þægilegt tafl og komst skiptamun yfir gegn Sinisa Dragic en þrátefli varð niðurstaðan í miðtaflinu þegar Dagur sá enga leið áfram.
Hilmir tapaði með svörtu, mjög svekkjandi tap þar sem Hilmir var með alla stöðuan og missti af sleggju sem hann myndi alltaf sjá í góðu formi.
28…Hd8? var ekki góður þar sem 28…Re3+! hefði endað skákina. Svartur þarf vissulega að reikna nokkra varíanta en Hilmir er að vinna sig úr smá öldudal og þá eru oft eins og slysin safnist upp.
Dagur hefur 3 vinninga af 4 þrátt fyrir yfirsetuna og Hilmir hefur 1,5 vinning.
Fimmta umferð er í gangi nú þegar fréttin var unnin. Tvöföld umferð er tefld á morgun og svo ein og ein.
- Heimasíða mótsins (úrslit og paranir)
- Skákir á lichess













