Þorsteinn kom við sögu hjá Sögu og sagði sögur.

FIDE-meistarinn Þorsteinn Þorsteinsson heldur áfram góðu gengi sínu á EM öldunga. Í dag fór fram 5. umferð og er Þorsteinn nú efstur í 65+ flokknum með 4,5 vinning, á undan mönnum eins og Nunn og Ftacnik! Framundan eru vafalítið strembnar umferðir! Þorsteinn teflir í 65+ flokknum ásamt stórmeistaranum Margeiri Péturssyni sem hefur hikstað aðeins en er taplaus. Í 50+ flokknum teflir stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson og er að standa sig vel.

Margeir og Þröstur eru meðal stigahæstu keppenda í sínum flokkum. Margeir er númer 5 í 65+ og Þorsteinn númer 13. Í 50+ er Þröstur númer 6 í sínum flokki.

65+ flokkur

Fmimta umferð fór fram í dag en í gær voru íslensku keppendurnir almennt á friðsælum nótum. Þorsteinn gerði jafntefli gegn frönskum skákmanni, Boulard.  Steini tefldi einhverskonar bastarð af drekanum, najdorf og öðrum sikileyjarvörnum. Jafnteflið var stutt en okkar maður hefði mögulega getað hrært upp í hlutum með skiptamunsfórn á c3 en ákvað að fara sér engu óðslega.

Í dag hafði Þorsteinn svo hvítt gegn sænskum skákmanni. Þorsteinn hafði betur í miðtaflinu og hélt góðri stjórn á stöðunni og náði sér í góðan sigur.

4,5 vinningur í hús og Þorsteinn einn í efsta sæti!

Margeir gerði jafntefli í gær og í dag. Margeir fékk vænlegt tafl í báðum en ekki nægjanlega mikið til að ná sér í vinning. Það hefur vantað örlítið upp á fallöxina hjá Margeiri í góðu stöðunum.

Margeir hefur 3 vinninga.

Samkvæmt útreikningum Skak.is mætir Þorsteinn króatanum Franjo Bilobrk og hefur svart en Margeir hefur hvítt gegn Sadiko Bedri.

50+ flokkur

Þröstur gerði jafntefli í gær gegn stórmeistaranum Nenad Fercec þar sem bátarugganir voru í lágmarki.

Í dag vann Þröstur svo nokkuð auðveldan sigur eftir hálf skunkalega peðsfórn hjá andstæðingi hans snemma tafls.

Þröstur er í grenndargámi ekki langt frá oddafisknum Degreave og lúrir hálfum vinningi á eftir.  Þröstur hefur hvítt gegn Jean-Marc Degreave samkvæmt kokkabókum Skak.is

Erlingur Arnarson hefur ekki komist á blað.

- Auglýsing -