Íslensku sveitirnar á Evrópumóti landsliða í skák töpuðu viðureignum sínum í 2. umferð mótsins. Í opnum flokki varð liðið aftur að sætta sig við tap með minnsta mun, í þetta skiptið gegn sterkri sveit Búlgaríu. Í kvennaflokki tapaði liðið 0-4 gegn þriðju sterkustu sveit mótsins, Úkraínu. Líklegast sterkasta sveit sem íslenska kvennalandsliðið hefur mætt í viðureign á fjórum borðum!
Opinn flokkur
Ljóst var að verkefni dagsins yrði erfitt. Búlgarir eru stigahærri á öllum borðum.

Aleksandr Domalchuk-Jonasson (Sasha) setti tóninn og gaf von um ágætis úrslit þegar hann gerði gott jafntefli með svörtu. Aleksandr átti aðeins undir högg að sækja framan af en hann fann eina leikinn í stöðunni í 16. leik
16…Dxb5!! gefur hrókinn á a8 en svartur fær mótspil og fljótlega kom þráskák á borðið. Allir aðrir leikir gefa hvítum yfirburðatafl.
Hér strax virtist staðan í viðureigninni lofa góðu, Vignir hafði betra, Guðmundur hafði jafnað taflið og Hannes virtist hafa fína stöðu.
Mögulega var það einhver sjónræn blekking með stöðu Hannesar. Hvítur hafði vissulega biskupaparið en svartur var traustur og aðeins meira bit í aðgerðum hans á drottningarvængnum. Svarta taflið var orðið betra þegar Hannes missti af sterkum mótleik eftir 26.Hxd3??
Hér átti Petkov 26…Hb2! sterkur millileikur sem skilur á milli og Hannes varð að lúta í dúk fljótlega eftir þetta.
Skák Guðmundar var lengst af í dýnamísku jafnvægi, færi á báða bóga en ekkert afgerandi. Ef eitthvað er fékk Guðmundur betri færi í kringum 30. leik en í gagnkvæmu tímahraki var Petrov sleipari á svellinu og Guðmundur tapaði skákinni sem var eilítið svekkjandi miðað við þróun hennar lengst af.
Viðureignin því orðin töpuð hér en Vignir bjargaði heiðri okkar.
Naiditsch kom Vigni eitthvað á óvart með kóngsindverskri vörn. Vignir fékk betra tafl en í kóngsindverjanum þarf alltaf að hafa áhyggjur af því að hreinlega verða ekki mát!
Naiditsch setti alla spilapeningana í miðjuna með 26…Bxh3!? 27.gxh3 og 27…Dd7
Vignir tefldi vörnina traust en hefði getað einfaldað sér verkefnið…
36.Bxc5! hefði sett svartan í alvarlegan bobba! Þess í stað hélt mótspilið áfram, Naiditsch var nokkrum sinnum nálægt því að fá nægjanlegt mótspil en á endanum náð Vignir að verjast öllum hótunum og þá taldi liðsaflinn.
Stundum eru stórkostlegir varíantar undir yfirborðinu! Vignir benti ritstjórn á eftirfarandi stöðu:
Hér spáði Vignir í 45.Hb2!? sem lítur alveg þokkalega út. Vandamálið er að svartur á ótrúlega vörn með 45…Hb7!! hrókinn má ekki taka útaf máti á e2 og eftir 46.Hxg2 fxg2 47.Kf2 kemur hinn ótrúlega svali 47…Hg7! en hvítur virðist hafa allt „undir control“ eftir 48.Kg1 en…
48…f3 sem hótar f2+ og á daginn kemur að 49.Dxf3 er svarað með 49…gxf1=D og svo …Hf7 og peðsendataflið er jafntefli! Magnað alveg!!
Við heyrðum aðeins í Vigni eftir skákina.
Næsta verkefni er Kosovo, sveit sem við mætum ansi oft á Evrópumótum og hefur gengið nokkuð vel gegn þeim yfirleitt.
Kvennaflokkur
Íslenska sveitin í kvennaflokki mætti mögulega sterkustu sveit sem liðið hefur mætt á þessum mótum. Sveit Úkraínu er númer 3 í stigaröðinni og þar er grjótharðir skákmenn, fyrrverandi heimsmeistari kvenna, stórmeistarar og fyrrverandi eiginkonur Grischuk og Ivanchuk!
Ljóst að róðurinn yrði erfiður hér!
Iðunn hafði svart og ákváðum við að vaða aðeins á andstæðinginn hér. Andstæðingur Iðunnar er ung og efnileg en líka grjóthörð, gerði t.d. jafntefli gegn Helga Áss með svörtu á móti í fyrra. Piddubna tapaði í gær og mögulega viðkvæm fyrir. Segja má að undirbúningurinn hafi að mörgu leiti gengið upp. Iðunn fékk hættulega sóknarstöðu, í góðu lagi í tölvunum og Piddubna notaði mikinn tíma og hörfaði aðeins með liðsaflann.
Svarta staðan var hinsvegar brothætt og án þess að leika af sér í raun, söfnuðust nokkrir ónákvæmir leikir upp og þegar hvítur opnaði stöðuna með gegnumbroti stóðu svörtu mennirnir illa og staðan hrundi fljótt. Kannski svona eins og fótboltaleikur sem tapast 0-5 en lokatölur gefa ekki rétta mynd af leiknum, sú úkraínska þurfti að hafa vel fyrir hlutunum.
Lenka hafði aftur hvítt og beitti svipuðu byrjanakerfi og í gær. Byrjunin er nokkuð traust en kannski ekki mikið bit í henni. Mögulega var séns á e4 framrás snemma tafls en í miðtaflinu vantaði hvítum betra plan í stöðunni og smátt og smátt hlóð Osmak í fallöxi á kóngsvængnum og féll hún að lokum með látum og hvíta kóngsstaðan hrundi.
Anna Ushenina kom Höllu eilítið á óvart með 1.e4. Ljóst að hún vildi tefla gegn Caro-kann en kannski kom hún bara sjálfri sér á óvart og fékk lítið með hvítu mönnunum, svarta staðan traust. Hallgerður lék engum augljósum afleikjum en svipað og á öðrum borðum var nokkrum ónákvæmum leikjum refsað af fullum þunga. Það sýndi sig á endanum hversu sterk úkraínska sveitin er!
Besta sénsinn hjá íslensku sveitinni fékk Guðrún Fanney. Guðrún hefur lagt mjög hart að sér við undirbúning og tilbúinn í flestar sviðsmyndir. Við áttum kannski síst von á franskri vörn en það var inni í myndinni, mesta vinnan fór í 1…e5. Guðrún hinsvegar bjó að undirbúningi gærdagsins og var því tilbúinn í …c4 leikinn sem er „réttari“ en það sem sú gríska valdi í gær.
Guðrún átti í fullu tré við Zhukovu.
Hér hefði Guðrún þurft að taka á e2. 21.Kxe2! líklegast hefur Guðrún misst af að eftir 21…Ba6+ 22.Kf2 Bxf1 23.Kxf1 Hfc8 að þá á hvítur 24.Bd1! sem heldur stöðunni saman. 24.Ke1!? með svipaði hugmynd 24…Hc1+ 25.Bd1 hefði einnig haldið jöfnu tafli.
Þetta voru eiginlega vatnaskilin. Zhukova hélt umframpeði en þrátt fyrir það var úrvinnslan erfið. Það má alltaf treysta á baráttu fram til síðasta blóðdropa hjá Guðrúnu. Guðrún var að gera verkefnið erfitt fyrir hinn reynda úkraínska stórmeistara en 36. leikur hvíts var ekki nógu góður til að halda taflinu gangandi og Zhukova gekk á lagið.
0-4 tap en fín reynsla fyrir liðið og sérstaklega okkar yngstu liðsmenn.
Á morgun mætir Ísland sveit Austurríkis og hefur svart. Sveitirnar hafa mætt sömu andstæðingum! Ísland gerði jafntefli við Grikki og tapaði gegn Úkraínu en Austurríki gerið jafntefli við Úkraínu og tapaði gegn Grikkjum. Ísland lagði Austurríki í Svartfjallalandi árið 2023 en síðan þá hefur Ísland misst Olgu á meðan að Austurríki hefur bætt við sig annarri Olgu!
- Heimasíða mótsins
- Chess-results – opinn flokkur
- Chess-results – kvennaflokkur
- Beinar útsendingar – Opinn flokkur
- Beinar útsendingar – kvennaflokkur
- Bein lýsing (ECU TV)