Taflfélag Reykjavíkur er efst íslensku sveitanna á EM Taflfélaga sem fram fer í Ródos á Grikklandi en fjórða umferð af sjö var tefld í dag. Fjölnir misstu vænlega viðureign niður í jafntefli og Blikar urðu að sætta sig við tap. Enginn íslensk sveit var í beinni útsendingu í dag en TR verða í beinni á morgun! Rennt verður yfir gang mála í umferðinni hér, lið fyrir lið.

Taflfélag Reykjavíkur

TR mætti norskri sveit Alta Sjakklub, að mestu skipaða ungum strákum, ungir strákar á uppleið en skákmaður á vizkualdrinum á neðsta borði.

Skemmst er frá því að segja að TR-ingar unnu stórsigur. Lokatölur gefa samt ekki endilega rétt mynd af hvernig viðureignin þróaðist. Þröstur og Ingvar voru í hættulegum skákum og Gauti fékk eiginlega gefins peð í endatafli sem dugði til.

Skákin hjá Þresti var hádramtísk. Þröstur fékk að því er virtist þægilegt tafl í sikileyarvörn með svörtu en í miðtaflinu sprakk allt í háaloft og staðan opnaðist hættulega. Hvítur með betri kóng og svarta staðan krefjandi. Þröstur fórnaði skiptamun og fékk í staðinn biskupaparið. Þröstur oft verið þekktur sem riddarameistari en í endataflinu bauð hann upp á sýningu í biskupaparinu. Biskuparnir tóku yfir borðið og höfðu betur gegn riddara og hróki hvíts, frípeð svarts komust af stað með hjálp biskupana og Þröstur náði ótrúlegum seiglusigri.

Ingvar beitti afbrigði úr smiðju Vignis Vatnars og heppnaðist það þokkalega þrátt fyrir ákveðið minnisleysi (ritstjóri eyddi mestum tíma í sikileyarvörn en upp kom 1.e4 e5). Hvítu mennirnir höfðu aðeins betri færi í endatafli en þá kom slæm taflmennska og svartur var allt í einu kominn með hartnær unnið tafl þegar hann leikur af sér…síðasti leikur b6-b5 ekki góður

Aftur vannst skákin á endataflstaktík, hér var leikið 39.Bc6!! með aðeins eina sekúndu á klukkunni! Hamagangurinn reyndar það mikill að leikurinn rétt náðist og laga þurfti kallinn eftir á…alveg á grennsunni! En sigurinn þarna í höfn þar sem Aleksandr var með stöðu sem ekki var hægt að tapa.

TR mætir sveit frá Litháen, Vilnius á morgun.

Skákdeild Breiðabliks

Blikar mættu Kósóvó-sveitinni sem TR gerði jafntefli við í umferðinni áður og það kom á daginn að Kósóvarnir eru ansi seigir! Asllani reyndist okkar mönnum aftur skeinuhættur og Afrim Fejzullahu ætti kannski að kíkja á mót á Íslandi til að „farma“ stig eins og ungdómurinn kallar það!

Hilmir hélt áfram góðu gengi en Vignir væntanlega óánægður með að klára ekki sinn andstæðing.

Blikar mæta Davit Jojua’s Chessclub, sveit frá Georgíu. Þar eru efnilegir krakkar og t.a.m. stúlka sem tefldi með einni af sveitum Georgíu á EM…ekki auðveld viðureign!

Fjölnir

Fjölnismenn þurftu að sætta sig við sitt annað grátlega jafntefli í ferðinni. Að þessu sinni var það Dagur Ragnarsson sem missti gríðarlega mikilvægt peð á ögurstundu í unnu tafli. Hann átti einhverja sénsa eftir það en andstæðingur hans varðist. Björn vann, Oliver laut í dúk en aðrar skákir enduðu með jafntefli.

Fjölnismenn mæta Aarhus í næstu umferð.

Sf. Akureyrar

Nokkuð auðvelt á skrifstofunni hjá Akureyri gegn Master Chess frá Írlandi. Jóhann vann sína þriðju skák í röð og Stefán Steingrímur var með góða nálgun gegn ungum skákmanni í byrjanavali og stíl!

Skemmtileg pörun hjá Akureyri sem mæta Cheddleton, skipað Simon Williams og félögum. Fjölmargir íslenskir skákmenn hafa teflt með Cheddleton í 4NCL bresku deildakeppninni, þar á meðal undirritaður.

Dímon

Litlu munaði að Dímon næðu aftur úrslitum. Þeir töpuðu með minnsta mun og átti Egill Steinar fína séns í sinni skák sem var síðasta skákin til að klárast. Hann var með unnið í miðtaflinu og átti svo mögulega færi í blálokin í erfiðu tímahraki í langri skák en datt ekki í dag.

Ólafur heldur áfram góðu gengi og er nú aðeins hálfum vinningi frá CM titlinum!!

Dímon fá írska sveit, St. Benildus á morgun.

Ísland í kvennaflokki

Sigur náðist gegn enskri sveit með ungar og efnilegar stelpur. Sigur Liss dugði til, aðrar skákir enduðu með jafntefli. Leiðinlegt reyndar að brjóta 0-4, 4-0, 0-4 mynstrið. Sigur Liss var skemmtilegur, andstæðingur hennar leit á Liss í miðri skák, fór fimm leiki aftur í tímann á skorblaðinu og setti spurningamerki við kantpeðsleik Liss. Vel má vera að sú enska hafi haft rétt fyrir sér en það hjálpaði ekki að þessu sinni!

Á morgun mætir kvennaliðið C’Chartres échecs franskri sveit.

Mótið fer fram í opnum flokki (102 sveitir) og kvennaflokki (20 sveitir) og stendur yfir í sjö umferðir frá 19. til 25. október.

Alls eru sex íslensk lið skráð til leiks af 122. Í opnum flokknum eru það:

  • Taflfélag Reykjavíkur (nr. 38)
  • Skákdeild Breiðabliks (nr. 43)
  • Skákdeild Fjölnis (nr. 46)
  • Skákfélag Akureyrar (nr. 58)
  • Dímon (nr. 99)

Í kvennaflokki er kvennalið sem teflir undir nafni Íslands

  • Ísland (15)

Alls tefla 38 skákmenn fyrir Íslands hönd á Ródos og flestir sterkustu skákmenn þjóðarinnar. Aðeins fjórar þjóðir eru fjölmennari en Ísland sem er magnað en það eru: England, Þýskaland, Holland og Grikkland.

 

- Auglýsing -