Lenka, Helgi Áss og Gauti

Icelandic Open – Íslandsmótið í skák hefst í dag. Teflt er í Hofi á Akureyri. Ríflega 60 keppendur eru skráðir til leiks og þar af eru um 10 erlendir keppendur.

Bein útsending

Fimm íslenskir stórmeistarar taka þátt. Það eru þeir Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Bragi Þorfinnsson, Þröstur Þórhallsson og Helgi Áss Grétarsson sem hefur Íslandsmeistaratitil að verja.

Alþjóðlegu meistararnir Guðmundur Kjartansson, Jón Viktor Gunnarsson og Björn Þorfinnsson taka líka þátt.

Hannes, Héðinn, Þröstur, Helgi Áss, Guðmundur og Jón Viktor hafa allir orðið Íslandsmeistarar.

Mótið er opið öllum sem þýðir að allmargir erlendir keppendur taka þátt. Stórmeistararnir og Íslandsvinirnir Ivan Sokolov og Tiger Hillarp Persson. Þeir geta, eðli málsins samkvæmt, ekki orðið Íslandsmeistarar.

Mótið er jafnframt Íslandsmót kvenna og unglingameistaramót Íslands. Þar hafa Lenka Ptácníková og Gauti Páll Jónsson titil að verja.

Keppendalistann má finna hér.

Mótið hefst kl. 15. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyri, setur mótið og leikur fyrsta leik þess.  Á morgun verða tefldar tvær umferðir.

Skákir frá mótinu verða í beinni og verða upplýsingar um hvernig sé best að nálgast þær birtar síðar í dag.